Kári myndi vilja loka landamærunum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að við séum að horfast í augu við vanda sem kemur til með að vera nokkuð viðvarandi,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður út í þróun heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Kári var gestur Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi í morgun, ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, sem Kári kallaði „besta sóttvarnalækni í heimi“.

Kári sagði að það smit sem nú sé uppi í samfélaginu sýni okkur að þó að landamæraskimun hafi gengið vel, þá nægi það ekki til. 

„Við vorum komin á góðan stað, við vorum búin að hreinsa landið að nokkru leyti af veirunni. Síðan var sú ákvörðun tekin að opna landamærin og hefja þar skimun, sú skimun hefur gengið mjög vel og það hefur lítið af smiti borist inn í landið. Nema hvað, allt í einu sitjum við núna uppi með smit sem er lítill vafi á að megi rekja til eins einstaklings sem komið hefur hingað með veiruna. Það eru núna 32 hópar sem ekki má rekja saman sem hafa smitast af þessari veiru. Það hlýtur að vera eitthvað á milli sem hefur smitað veiruna frá einum hópi til annars,“ sagði Kári. 

Hann sagði að nú þyrftum við að horfast í augu við það val sem við okkur blasir. Um flókna og pólitíska ákvörðun sé að ræða sem einhver verði að taka. Höldum við landinu opnu og þurfum þá mögulega að glíma við smit og afleiðingar þess, eða lokum við landinu og horfum þar af leiðandi á eftir ferðaþjónustunni næstu mánuðina, spyr Kári.

Persónulega segist Kári kjósa það að landamærum verði lokað á þessu augnabliki á meðan verið sé að reyna að ná utan um þann faraldur sem nú er í gangi og ákvörðun síðan tekin í framhaldinu. 

Þetta er það sem menn eru að velta fyrir sér, sagði Þórólfur þá. Allt sem er gert mun hafa einhverjar afleiðingar fyrir einhverja. Skoðun Þórólfs er sú að það vanti hagrænt uppgjör á þeim aðgerðum sem verið er að grípa til, og þá geti menn bara valið. Sem sóttvarnalæknir gefur Þórólfur stjórnvöldum val og útskýrir hvað felst í hverju vali fyrir sig. 

Ef við lokum og sendum alla í sóttkví þá verður eftir sem áður mikið af undanþágubeiðnum svo það verður alltaf eitthvað af fólki sem  mun koma hingað til lands og þá getur það gerst sem er að gerast núna, segir Þórólfur. Nánast sama hvað gert verður munum við alltaf lifa við þá áhættu að við fáum svipaðan faraldur og við erum að sjá núna. 

Ákvörðun eigi ekki að hvíla á Þórólfi 

Kári segist vilja að við gerum þá kröfu að þeir sem hingað koma fari allir í skimun, fimm daga sóttkví og síðan aftur í skimun, það sé einfaldlega spurning um líkindi. Kári segir að það eigi ekki að hvíla á herðum Þórólfs að ákveða hvað skuli gera. Stjórnvöld ættu að setja fram beiðni á grundvelli þess sem þau kjósa og Þórólfur ætti að ráðleggja stjórnvöldum í samræmi við það. 

Kári segir það algjört grundvallaratriði að börn geti farið í skóla og við sem samfélag stundað það menningarlíf sem við nærumst á. Ferðaþjónustan hefur aftur á móti verið gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðfélagið og það væri erfitt að horfa á eftir henni, jafnvel þótt það væri aðeins til skemmri tíma. Þetta sé flókin ákvörðun að taka. 

„Ég held að við séum ekki að horfa fram á neina töfralausn á næstunni, sagði Þórólfur þá. Það eru ekki nein merki um að veiran sé að veiklast og ég get ekki séð að það séu bóluefni í seilingarfjarlægð. Við þurfum að bíða róleg og sjá hverju það skilar, en raunsætt séð er það ekki strax,“ sagði Þórólfur. 

Þá sagði Þórólfur að hann telji að það verði ákveðin barátta á milli þjóða að fá nægt bóluefni, svipuð barátta og var uppi um hlífðarbúnað í upphafi faraldursins. 

Kári segist bjartsýnni en Þórólfur þegar kemur að þróun bóluefnis og honum sýnist það ganga vel. Ég yrði hissa ef það væri ekki komið bóluefni sem hægt væri að dreifa víða um heim um mitt næsta ár, sagði Kári. Þangað til verði stjórnvöld að setjast niður og gera það upp við sig hvar þau vilja heyja sína baráttu. Kári er mjög feginn því að þetta hvíli á þeim sem njóta þess að vera kjörnir fulltrúar fólksins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina