„Enginn velur að koma hingað“

„Það er alveg magnað, og það er stærsta ástæðan fyrir því að ég er í þessu starfi, að upplifa hvað maður getur gert mikið bara á nokkrum klukkustundum. Það er enginn sem velur að koma hingað,“ segir Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Ég settist niður með henni í móttökuherberginu á Landspítalanum í Fossvogi í vikunni og fékk að hana til að segja mér frá starfinu sem þar er unnið. Þangað leitar fólk eftir að hafa orðið fyrir því sem er í mörgum tilfellum erfiðasta lífsreynsla sem það hefur lent í. Það er erfitt ímynda sér hvernig fólk í hennar starfi tekst á við álagið sem því fylgir. 

Hlutirnir hafa gerst til þess að gera hratt þegar litið er til talna um komur á Neyðarmóttökuna. Árið 1993 þegar móttakan var opnuð leituðu fjörutíu og sex þolendur þangað. Á árunum sem fylgdu jókst vitund um þjónustuna jafnt og þétt. Málunum sem þangað bárust fjölgaði, voru gjarnan í kringum 100 talsins þótt einstaka ár hafi skorið sig úr eins og árin 2006 og 2007 þegar þau voru um 140 talsins.

Talsverð breyting varð þó á í tengslum við opnari umræðu í þjóðfélaginu sem hófst um árið 2016. „Þá verður Beauty-tips-byltingin, Druslugangan skipaði sinn sess auk þess sem þolendur fara að koma meira fram og segja sínar sögur,“ segir Hrönn.

Innan heilbrigðiskerfisins hafi málaflokkurinn einnig fengið aukið vægi og svo virtist aukinn áhugi hjá fjölmiðlum á að fjalla um kynferðisofbeldi. Umræðan breyttist mikið. Þetta var um það leyti sem Hrönn tók við sem verkefnisstjóri á Neyðarmóttökunni eftir að hafa starfað þar um nokkurra ára skeið. Grundvallarbreyting hafi orðið á viðhorfum fólks til kynferðisofbeldis. „Það er að skömmin á ekki að vera hjá þolendum og það er þessi góða breyting sem hefur átt sér stað. Maður finnur fyrir því þegar maður mætir þolendum og það sama hefur maður heyrt frá öðrum sem starfa í kerfinu eins og hjá héraðssaksóknara,“ segir Hrönn.

Í takt við aukna umræðu í þjóðfélaginu og breytt viðhorf …
Í takt við aukna umræðu í þjóðfélaginu og breytt viðhorf til kynferðisofbeldis hefur þeim fjölgað sem nýta bráðaþjónustuna sem veitt er á Neyðarmóttökunni.

Er mikill munur á milli kynslóða?

„Já, Neyðarmóttakan var ekki einu sinni til þegar ég var í menntaskóla, ég veit ekki hvert ég hefði leitað ef ég hefði verið sautján ára og orðið fyrir kynferðisofbeldi,“ segir Hrönn en hún útskrifaðist úr Menntaskólanum við Sund um svipað leyti og Neyðarmóttakan opnaði fyrst. Greinilegt sé að yngri þolendur séu meðvitaðri þegar á þeim hefur verið brotið.

Aukningin var það mikil á árunum 2016-2018 að Hildur Dís Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur kom inn sem verkefnisstjóri á móttökuna samhliða Hrönn. Þessi aukna aðsókn hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Hrönn nefnir rannsókn sem kynnt var í Finnlandi árið 2018 þar sem komur á deildina voru flestar sé miðað við höfðatölu. Einhverjum kynni að þykja þetta vera síður en svo eftirsóknarverða niðurstöðu en fólk sem starfar í geiranum sér hlutina í öðru ljósi. Það að fólk (konur eru í miklum meirihluta þótt sífellt algengara sé að karlar og strákar komi á móttökuna í Fossvogi) sé reiðubúið til að stíga skrefið sem engum þykir auðvelt og koma þangað í skoðun, er í raun mikil framför og í raun meðmæli með því starfi sem unnið er í málaflokknum hér á landi. „Sérfræðingar sem við hittum: læknar og hjúkrunarfræðingar komu til okkar [á fyrrnefndri ráðstefnu í Finnlandi] og spurðu okkur: „Hvernig gerið þið þetta?““ Ekki síður telur Hrönn að smæð samfélagsins geri það að verkum að skrefið sé auðveldara fyrir brotaþola. Styttra sé á Neyðarmóttökuna þegar skýrt sé hvert eigi að leita. Sams konar verklag er notað á landsbyggðinni og í Fossvogi og samskiptin þar í milli eru töluverð. Neyðarmóttakan á Akureyri hefur verið starfrækt frá árinu 1995 og á Ísafirði og í Neskaupstað eru læknar og ljósmæður sem framkvæma skoðunina á sjúkrahúsunum þar. 

Tíminn skiptir miklu máli

Afar mikilvægt er að tíminn sem líður frá því að meint brot á sér stað þar til skoðun er gerð sé ekki of mikill. Miðað er við að mál sem eru eldri en mánaðargömul eigi ekki erindi á bráðamóttökuna þótt undantekningar séu gerðar, til að mynda þegar brot hafa átt sér stað erlendis. Hrönn segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að koma þeim skilaboðum út í samfélagið að leita sem fyrst á Neyðarmóttökuna. Ástæðan fyrir því er tvíþætt; mikilvægt er að ná lífssýnum og frásögnum sem fyrst en ekki síður að hlúa að þolendum strax sem Hrönn segir að hafi sannað gildi sitt.

„Það sem við gerum á Neyðarmóttökunni er að við tökum heildrænt utan um skjólstæðinga okkar. Í teyminu eru fimm læknar, sextán hjúkrunarfræðingar og sjö réttargæslumenn sem eru lögfræðingar á bakvöktum. Þeir koma í flestöllum tilvikum samstundis ef það eru ný mál,“ útskýrir Hrönn. Almennt er miðað við að meint brot til rannsóknar flokkist sem ný mál ef þau koma inn á borð til Neyðarmóttökunnar innan tveggja sólarhringa en koma brotaþola er ávallt óháð ákvörðun um hvort lögð verði fram kæra. Engin ákvörðun þarf að liggja fyrir um slíkt áður en leitað er til Neyðarmóttökunnar. Lífssýni séu geymd og hægt sé að leggja fram kæru næstu mánuði og þá eru málin rannsökuð af lögreglu.

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum.
Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum. Eggert Jóhannesson

Sálfræðihjálpin hefur sannað sig

Hrönn segir það hafa verið mikla framför þegar tekið var að bjóða þolendum sem hafa náð 18 ára aldri sálfræðihjálp, fyrirkomulag sem kollegar hennar erlendis líta öfundaraugum á en slíkt þekkist varla annars staðar en er hér á landi sem hluti af þjónustu neyðarmóttöku. „Sálfræðingarnir eru þá sérhæfðir í að taka við þolendum eftir kynferðisbrot. Þeir sinna eftirfylgni og meta hvort hætta sé á áfallastreituröskun eða öðru sem þekkt er að geti þróast í kjölfar kynferðisofbeldis. Brotaþolar yngri en 18 ára fá þjónustu í gegnum barnaverndir og í Barnahúsi.

Þjónustan sem þolendum stendur til boða hér á landi er því með því besta sem þekkist í heiminum en ofan á það bætist að hún er algerlega gjaldfrjáls, jafnvel þótt þolendur sem leiti á neyðarmóttökuna séu með erlent ríkisfang. Eitt af því sem vanalega vekur eftirtekt hjá fólki sem kemur erlendis frá.

Eitt af yfirlýstum markmiðum Neyðarmóttökunnar er að minnka þörf skjólstæðinga fyrir heilbrigðisþjónustu síðar meir vegna áfallsins. Þekkt vandamál eftir slík áföll eru svefntruflanir, kvíði, skömm, félagsleg einangrun og misnotkun á áfengi og vímuefnum. Áherslan hefur því færst meira yfir í að veita sálfræðilegan stuðning og fræðslu á þessum fyrstu sólarhringum sem líða frá því að fólk leitar til Hrannar og samstarfsfólks hennar í Fossvoginum.

Rannsóknir sýna að þeir sem verða fyrir kynferðisofbeldi snemma á …
Rannsóknir sýna að þeir sem verða fyrir kynferðisofbeldi snemma á ævinni séu líklegri til að verða aftur fyrir því síðar á lífsleiðinni. Hrönn segir því afar mikilvægt að hlúa vel að yngstu þolendum kynferðisofbeldis.

„Þegar við tökum á móti þolendum þá erum við að veita sálræna aðhlynningu. Samtalið er á sama tíma fræðsla. Við vitum að þeir sem verða fyrir áfalli, og kynferðisofbeldi er það svo sannarlega, meðtaka kannski ekki allt sem við segjum. En þeir fá fræðslu og þeir fá eftirfylgd. Fólk tekur með sér bækling sem við hvetjum það til að lesa yfir þegar það er að ná áttum. Það felst gjarnan í því að hlúa vel að sér og sofa. Í bæklingnum er góð fræðsla um hvernig á að hlúa að sjálfum sér. Svo fylgjum við þessu eftir með upplýsingum um smitsjúkdómasýnin sem eru tekin en fólk hefur í mörgum tilfellum áhyggjur af útkomu þeirra og sinni heilsu.“

Fyrsta virka dag eftir komuna hringja sálfræðingar neyðarmóttökunnar í þolendur þar sem farið er aftur yfir helstu atriði sem skipta máli. Yfirleitt tekst svo að veita viðtal við sálfræðing innan viku. Þrátt fyrir að sálfræðiþjónusta sé engin nýlunda þegar kemur að því að meðhöndla áföll á borð við kynferðisofbeldi, segir Hrönn þó að á undanförnum árum hafi vitund um mikilvægi hennar aukist verulega og áherslan orðið þyngri í samræmi við það.

„Á síðustu árum hefur orðið til svo mikil þekking á afleiðingum kynferðisofbeldis sem við nýtum í starfinu. Sálfræðingarnir okkar vinna eftir áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð. Gengið er út frá því að fræða skjólstæðingana um hvað séu eðlileg áfallaviðbrögð sem þekkt er að finna fyrir eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Svefninn getur raskast, auðvitað líður mörgum illa og margir finna fyrir óraunveruleikakennd eða dofa. Það er líka eðlilegt að gráta ekki og það er eðlilegt að vera hræddur. Það sem þarf að passa upp á er að ástandið verði ekki langvarandi. Að þolendur hætti ekki að keyra Laugaveginn af því að þar gerðist eitthvað tengt skemmtun sem þeir voru á. Eða að þeir hætti ekki að mæta í skóla eða vinnu. Á sama tíma er fullkomnlega eðlilegt að vilja stundum fá að vera í friði.“ 

Hrönn segir að á Neyðarmóttökunni sjálfri hafi einnig orðið til mikil þekking og reynsla hjá starfsfólkinu á þessum tæpu þremur áratugum frá því starfsemin hófst. Sérstaklega minnist hún á Eyrúnu Jónsdóttur hjúkrunarfræðing og forvera sinn í starfi sem hafi unnið mikið starf. Þetta sé ekki síst að skila niðurstöðum sem eftir er tekið þegar árangur Neyðarmóttökunnar er settur í alþjóðlegan samanburð. Mannlegi þátturinn sé þar stærsta atriðið. „Mín tilfinning er að við séum mjög hlý móttaka og að fólk sem hingað leitar finni fyrir trausti,“ segir Hrönn.

Stutt er síðan móttakan var endurnýjuð og Hrönn er afar …
Stutt er síðan móttakan var endurnýjuð og Hrönn er afar ánægð með hvernig breytingarnar heppnuðust. Eggert Jóhannesson

Teygja sig til jaðarhópa

Á síðustu misserum hefur Neyðarmóttakan verið í samstarfi við Konukot, VOR-teymi Reykjavíkurborgar og Frú Ragnheiði með það að markmiði að ná betur til hópa sem eru í virkri vímuefnaneyslu. Hrönn er afar ánægð með árangurinn sem hefur náðst þar enda er um jaðarsetta hópa að ræða sem leita síður aðstoðar fagfólks verði þeir fyrir ofbeldi. Hægt sé að tala um kaflaskil þar sem ofbeldið sem fólk í þessum hópi verður fyrir sé bæði algengt og harkalegt en það hafi til langs tíma veigrað sér við að leita til Neyðarmóttökunnar.

„Aðstæðurnar sem þolendurnir eru í eru alveg hrikalegar.“ Þarna staldrar Hrönn við til að leita að réttu orðunum enda hafa hún og samstarfsfólk hennar setið þarna í nákvæmlega sama stól og hlustað á fólk í stólnum sem ég sit í segja frá ofbeldinu sem það hefur gengið í gegnum. „Það er mikil skömm. Þetta eru einstaklingar sem hafa oft búið við langvarandi ofbeldi oftar en ekki í æsku og þar er mjög algengt að fólk hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi sem börn. Við höfum náð að nálgast þolendur þarna og það skiptir miklu máli að þessir einstaklingar fái það staðfest að þeir hafi orðið fyrir ofbeldi en ekki að það hafi verið þeir sem komu sér í þessar aðstæður og beri á einhvern hátt sök. Neyslan er þá oftar en ekki deyfing við sársauka sem þau urðu fyrir sem börn.“

Hrönn hefur starfað á neyðarmóttökunni í sjö ár þar sem hún hefur setið andspænis fólki og hlustað á það rifja upp erfiðustu stundir lífs síns oft í miklu uppnámi. Það tekur á og til þess að hlúa að sjálfri sér notar hún núvitundaræfingar, jóga og hugleiðslu í hugleiðsluherbergi spítalans eftir erfiðustu vinnudagana. Mikilvægt sé að taka ekki álagið úr starfinu inn á heimilið. Hins vegar sé það þannig að þeir sem veljist í þessi störf, og endist í þeim, starfi af hugsjón og finnist þeir vera að gera mikið gagn. „Það er alveg magnað, og það er stærsta ástæðan fyrir því að ég er í þessu starfi, að upplifa hvað maður getur gert mikið bara á nokkrum klukkustundum. Enginn velur að koma hingað, það er mjög erfitt skref sem þarf hugrekki til að taka. Vanlíðan þeirra er á sama tíma mjög mikil. Skoðunin sjálf getur líka verið erfið en með fræðslu og góðri nærveru okkar sem að vinnum hér þá sér maður mikinn létti hjá brotaþola og þeir lýsa því oft sem gerir starfið gjöfult. Það fylgir því léttir að koma hingað og þiggja þá aðstoð sem að hér er í boði, alla aðstoð eða hluta. Maður sér að það er heilandi fyr­ir fólk að fara í gegn­um ferlið hjá okk­ur,“ segir Hrönn.

mbl.is