Úrræði fyrir heimilislausar konur framlengt

Neyðarúrræðið er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu og er opið …
Neyðarúrræðið er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu og er opið konum alls staðar að af landinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Neyðarúrræði fyrir heimilislausar konur sem til stóð að loka í sumar verður framlengt í ljósi þess að enn ríkir óvissa vegna heimsfaraldursins og krafa um tveggja metra reglu er enn í gildi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, en um er að ræða úrræði á vegum borgarinnar og félagsmálaráðuneytisins til að koma til móts við þarfir heimilislausra kvenna og var þeim komið fyrir í Konukoti og í öðru úrræði til að hægt væri að tryggja 2. metra reglu.

Neyðarúrræðið sem hér um ræðir er til bráðabirgða. Til stóð að loka því í sumar en tekin hefur verið ákvörðun um að framlengja það, í ljósi þess að enn ríkir óvissa vegna heimsfaraldursins og krafa um tveggja metra regluna í gildi,“ segir í tilkynningu. 

Neyðarúrræðið er rekið með fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu og er opið konum alls staðar að af landinu. Velferðarsvið á nú í viðræðum við eiganda hússins um áframhaldandi rekstur til skamms tíma og hefur fengið vilyrði fyrir áframhaldandi fjárframlagi frá félagsmálaráðuneytinu. 

„Það er mat velferðarsviðs að neyðarúrræðið sem hér um ræðir hafi nýst afar vel. Konurnar sem þar hafa dvalið hafa lýst yfir ánægju með það, líkt og þær segja sjálfar frá í sameiginlegri yfirlýsingu. Að úrræðinu koma auk félagsmálaráðuneytis og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, geðdeild Landspítalans og Rauði krossinn og hefur samstarfið gengið vel.“ 

Kostnaður vegna neyðarúrræðisins er 9 milljónir króna á mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka