„Ekki N-Kórea, heldur Ísland, besta land í heimi“

Olivier er svissneskur áhugaljósmyndari sem kallar sig paparassa himinsins eða …
Olivier er svissneskur áhugaljósmyndari sem kallar sig paparassa himinsins eða „paparazzi del cielo“ á ítölsku. Hann er nú í sinni þrettándu heimsókn til Íslands til þess að mynda norðurljós. Ljósmynd/Olivier Staiger

Olivier Staiger er svissneskur áhugaljósmyndari sem kom hingað til lands á þriðjudag. Hann er því nú í sóttkví, hefur lokið fyrstu skimun og bíður þess að komast í aðra skimun á sunnudag. Til þess þarf hann að keyra alla leið frá Grundarfirði til Reykjavíkur þar sem hvergi annars staðar er hægt að komast í seinni skimun á sunnudögum.

Þetta er þrettánda ferð Oliviers til Íslands og segist hann gjörsamlega hugfanginn af norðurljósunum. Af þeim tekur hann fjölda mynda sem hann birtir á samfélagsmiðlum.

Segir auðvelt að vera í sóttkví á Íslandi

„Fólk heldur að það sé ekkert hægt að koma hingað til lands vegna þessarar tvöföldu skimunnar, en það er margt hægt að gera á meðan maður er í sóttkví. Þetta er frjálst land með sanngjarnar og rúmar reglur fyrir ferðamenn. Þetta er ekki Norður-Kórea, þetta er Ísland, besta land í heimi,“ segir Olivier í samtali við mbl.is.

Vill upplýsa aðra ferðamenn

Olivier heldur úti síðunni Iceland Quarantine þar sem hann birtir sögur af sjálfum sér, ráð til þeirra sem eru á leið til Íslands í sóttkví og myndir sem hann tekur í kringum bústaðinn á Grundarfirði þar sem hann heldur til. Tilgang síðunnar segir Olivier vera að upplýsa fólk um hversu auðvelt það er að vera í sóttkví milli skimana á Íslandi. Margt sé hægt að gera.

Útsýni er úr bústaðnum er á hafið og tók Olivier þessar fallegu myndir af því sem hann segir vera grindhvalamóður með kálfi sínum úti á Breiðafirði.  

Ljósmynd/Olivier Staiger
Ljósmynd/Olivier Staiger

„Það er hægt að fara í göngutúra svo lengi sem maður heldur fjarlægð við annað fólk og það er hægt að keyra óralangt án þess að trufla neinn mann. Svo ef maður lendir í Keflavík og vill gista á Egilsstöðum þá er það alveg í lagi svo lengi sem fólk fari eftir reglum þegar það tekur eldsneyti. Ég sendi póst á hérlend yfirvöld og spurði, þau sögðu bara að ég yrði að vera í hönskum á meðan ég fyllti á bílinn.“

Heimshornaflakkari

Olivier hefur farið til allra heimshorna í leit að góðum myndum og sérhæfir sig í að taka myndir af himninum. Áhugi hans á himninum hafi kviknað þegar hann byrjaði að taka myndir af sól- og tunglmyrkvum. Hann segist hafa séð 26 slíka um ævina, þar á meðal á Suðurskautslandinu, í Norður-Ameríku og Asíu. Því næst fór hann að mynda veðurfyrirbæri á borð við hvirfilbyli. Nú sé áhuginn hins vegar allur á norðurljósunum.

„Ég er algjörlega hugfanginn af norðurljósum. Eitt sinn var ég staddur með vini mínum á austurlandi, rétt við Höfn í Hornafirði, þegar við fréttum að Snæfellsnes yrði eini staðurinn þar sem heiðskýrt yrði um nóttina. Við lögðum af stað fyrir hádegi, keyrðum um 600 kílómetra leið og gátum myndað norðurljósin alla nóttina á Snæfellsnesi. Þau dönsuðu í myrkrinu – þvílík fegurð,“ segir Olivier sem segist ekkert hafa verið þreyttur eftir askturinn. Hann hafi eitt sinn unnið við að keyra límósínu heima í Sviss og sé vanur löngum akstri.

Tekur ekki bara myndavélina með sér

Olivier heldur einnig úti YouTube-rás þar sem hann birtir myndbönd af því sem fyrir augu ber á Íslandi og víðar. Hann hefur alltaf fiðluna sína með sér og spilar sjálfur undir myndbönd af iðagrænum og dansandi norðurljósum.

Fiskur og franskar

Olivier ætlaði upphaflega að fara heim á sunnudag og á enn bókað flug en eftir að stjórnvöld breyttu fyrirkomulagi skimana á landamærum þá ákvað hann að vera aðeins lengur, að minnsta kosti 5 til 6 daga. Þegar Olivier var spurður að því hvað væri það fyrsta sem hann ætlaði að gera þegar hann losnaði úr sóttkvínni stóð ekki á svörum.

„Ég ætla til Reykjavíkur í seinna covid-prófið, bíða í bílnum eftir niðurstöðum og halda svo beinustu leið niður í miðbæ og fá mér fisk og franskar. Ég get ekki beðið,“ sagði Olivier skellihlæjandi.

mbl.is