Tillaga um húsnæði á Keldum og í Örfirisey felld

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarstjórn felldi á fundi sínum í dag tillögu Sjálfstæðisflokksins um skipulagningu hagkvæms húsnæði fyrir almennan markað á Keldum og í Örfirisey.

Tillagan gerði jafnframt ráð fyrir að samhliða þessu yrði farið í að skipuleggja atvinnulóðir á Keldum.

„Samkomulag var um að skipuleggja íbúðabyggð á Keldnalandinu árið 2019 en nú er langt liðið á 2020 og ekkert búið að gera,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í tilkynningu.

Hann bætir við að eina uppbyggingarsvæðið sem bent var á í tengslum við lífskjarasamninginn hafi verið Keldur.

„Í stað þess að standa við þær skuldbindingar sem bæði felast í samgöngusáttmálanum annars vegar og lífskjarasamningunum hins vegar þá fellir vinstrimeirihlutinn þessa sjálfsögðu tillögu og treystir á að flugvöllurinn hverfi innan skamms tíma og þar sé hægt að byggja 4.000 íbúðir. Það er öllum ljóst að ekkert verður byggt á því svæði næstu árin nema loftkastalar,“ segir hann. 

Þá bendir Eyþór á í tilkynningunni að núverandi stefna með lúxusíbúðir og sértæk úrræði gagnist of fáum. „Borgin hefur verið langt undir markmiðum sínum með fullbyggðar íbúðir, en að jafnaði vantaði um 500 fullbyggðar íbúðir á ári síðasta áratuginn til að mæta þeirra eigin áætlunum. Þau falla því á eigin prófi.“

„Draga upp illa unnin kosningaloforð“

Stutt er síðan Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata og formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs, sagði þessa til­lögu Sjálfstæðisflokksins vera „ófag­legt fúsk“. 

„Ég myndi segja að það að draga upp illa unn­in kosn­ingalof­orð á miðju kjör­tíma­bili sé ekki sterk­ur leik­ur hjá Sjálf­stæðis­flokkn­um þar sem það er löngu búið að sýna fram á hversu slæm­ar þær til­lög­ur voru,“ sagði hún í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert