Fjölskyldan fannst ekki

Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Ekki var unnt að framfylgja frávísun egypskrar fjölskyldu frá landinu sem fara átti fram í morgun. Fólkið var ekki á fyrirframákveðnum stað þar stoðdeild hugðist fylgja því úr landi. Ekki er vitað um dvalarstað fólksins samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra.

Málið er áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu að því er segir í tilkynningu frá embættinu.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður Kehdr-fjöl­skyld­unn­ar, sagði í samtali við mbl.is rétt fyrir klukkan tíu að hann hefði ekki náð í fjölskylduna í dag og slökkt hefði verið á símum þeirra. Hann hefði búist við því að fjölskyldan yrði sótt klukkan 5:30 og henni vísað úr landi.  

„Það er slökkt á símunum þeirra og ég er í myrkrinu eins og aðrir með það,“ sagði Magnús. 

Til stóð að fjöl­skyld­an flygi með flug­vél Icelanda­ir til Amster­dam í morg­un og fór sú flug­vél af landi brott klukk­an 7:31 án fjölskyldunnar. 

mbl.is