Lögreglan stöðvaði fjölmennt unglingasamkvæmi

Lögreglan stöðvaði í nótt fjölmennt eftirlitslaust unglingasamkvæmi í Kópavogi.
Lögreglan stöðvaði í nótt fjölmennt eftirlitslaust unglingasamkvæmi í Kópavogi. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan stöðvaði eftirlitslaust unglingasamkvæmi í Kópavogi á ellefta tímanum í gærkvöldi. Samtals voru um 20 manns fyrir utan húsið og eftir að í ljós kom að enginn fullorðinn var á staðnum og ekki náðist í föður húsráðanda voru allir gestir reknir út, samtals 62 unglingar.

Í dagbók lögreglu segir að ættingi hafi komið á vettvang og tekið að sér húsráðanda og aðstoðað við að loka húsinu. Var tilkynning send til Barnaverndar vegna málsins.

Tvö innbrot eða tilraunir til innbrots í fyrirtæki voru einnig tilkynnt í nótt. Annað var á þriðja tímanum í fataverslun. Þar brutu tveir aðilar rúðu, fóru inn og stálu fatnaði. Í hinu tilfellinu var öryggisgler í hurð brotið og reynt að komast inn. Hins vegar tókst það ekki, en á eftirlitsmyndavél sést til tveggja grímuklæddra einstaklinga brjóta glerið.

Lögreglan hafði í nótt einnig afskipti af fjölda ölvunar- og fíkniefnaakstursmálum eða málum þar sem viðkomandi hefur verið sviptur ökuréttindum. Samtals var um að ræða ellefu mál, meðal annars eitt tilvik þar sem keyrt hafði verið á grindverk, en ökumaður og farþegi yfirgáfu vettvang. Fundust þeir skömmu síðar og voru handteknir, en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda.

Í Hafnarfirði var ökumaður svo stöðvaður, en hann reyndist vera sviptur ökuréttindum og bifreiðin með röng skráningarnúmer. Var hann kærður fyrir skjalafals.

mbl.is

Bloggað um fréttina