Andlát: Bryndís Pétursdóttir leikkona

Bryndís Pétursdóttir.
Bryndís Pétursdóttir.

Bryndís Pétursdóttir leikkona lést sl. mánudag, 21. september, tæplega 92 ára að aldri.

Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára. Foreldrar hennar voru Pétur Sigurðsson, bóndi og vitavörður, og Guðlaug Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri.

Bryndís gekk í Verzlunarskóla Íslands en fór 16 ára í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og útskrifaðist þaðan. Hún steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu 18. nóvember 1946. Hún sté fyrst leikara á svið í vígslusýningu Þjóðleikhússins sem Guðrún í Nýársnóttinni.

Í Þjóðleikhúsinu lék Bryndís uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir ef frá eru talin nokkur leikrit hjá Leikfélagi Reykjavíkur auk þess að taka þátt í leikriti hjá Leikfélagi Akureyrar. Á yngri árum fór Bryndís á sumrum í margar leikferðir um landið.

Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið eru Rósalind í Sem yður þóknast, Helga í Gullna hliðinu ('52 og '55), Sybil í Einkalífi, Sigríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikollinum, Ismena í Antígónu Anouhils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Doris í Brosinu dularfulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Charles í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eftir syndafallið, Vala í Lausnargjaldi, Enuice í Sporvagninum Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998.

Bryndís lék einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Hún fór m.a. með aðalhlutverk í fyrstu íslensku talsettu kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Eiginmaður Bryndísar var Örn Eiríksson loftsiglingafræðingur, hann lést 1996. Synir þeirra eru Eiríkur Örn, Pétur og Sigurður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »