22% með sveigjanlegan vinnutíma

AFP

Rúmlega 22% starfandi einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði höfðu sveigjanlegan vinnutíma á öðrum ársfjórðungi 2019 samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands á vinnufyrirkomulagi og skipulagi vinnutíma sem framkvæmd var sem hluti af vinnumarkaðsrannsókn.

Á sama tíma sögðust 28,4% hafa sveigjanlegan vinnutíma að hluta til og 49,3% að atvinnurekandi eða viðskiptavinir stjórnuðu vinnutímanum. Fleiri karlar en konur sögðust vera með sveigjanlegan vinnutíma eða 25,7% karla samanborið við 18,2% kvenna. Svipuð hlutföll karla og kvenna voru með sveigjanlegan vinnutíma að hluta eða 27,6% karla og 29,3% kvenna. Hjá einstaklingum á aldrinum 16-24 ára réð atvinnurekandi eða viðskiptavinir alfarið vinnutímanum hjá 77,9% samanborið við 45,3% í hópi 25-54 ára og 40,3% í hópi 55-74 ára.

Auðveldara að fá frí með stuttum fyrirvara á Íslandi en annars staðar

Þegar sveigjanleiki vinnutíma er skoðaður eftir starfsstéttum var hlutfall þeirra sem hafa sveigjanlegan vinnutíma hæst hjá bændum og fiskimönnum eða 61,6%. Lægsta hlutfallið var hinsvegar hjá þeim sem gegna þjónustu-, umönnunar- og sölustörfum, eða 7,9%, og hjá þeim sem sinna ósérhæfðum störfum, 8,0%. Hæsta hlutfall einstaklinga með sveigjanlegan vinnutíma að hluta var hjá sérfræðingum, eða 43,4%, en lægst hjá þeim sem sinna störfum véla- og vélgæslufólks, 13,5%. 

Alls voru 18% Evrópubúa með sveigjanlegan vinnutíma á 2. ársfjórðungi 2019, 21% höfðu sveigjanlegan vinnutíma að hluta til en atvinnurekendur eða viðskiptavinir stjórnuðu vinnutíma hjá tæplega 61%. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem algengast er að vinnutími sé sveigjanlegur (22,3%) en hærra hlutfall má sjá í Tyrklandi (29,6%), Rúmeníu og Belgíu (22,6%) og Finnlandi (22,5%).

Töluverður munur er á milli kynjanna þegar kemur að því að fá eins til tveggja daga frí með þriggja daga fyrirvara en 78% karla á aldrinum 16-74 ára segjast eiga mjög eða frekar auðvelt með að fá frí samanborið við rúm 66% kvenna. Mismuninn má sjá í öllum aldursflokkum, en hlutfall þeirra sem segist eiga mjög auðvelt eða frekar auðvelt með að fá frí er tæplega 16 prósentustigum hærri hjá 16-24 ára körlum samanborið við konur, tæplega 9 prósentustigum hærra hjá 25-54 ára og um 17 prósentustigum hærra hjá 55-74 ára.

Alls eiga 19% starfandi í Evrópu mjög auðvelt með að fá frí, tæp 36% segjast eiga frekar auðvelt með að fá frí, 16% segja það frekar erfitt og 29% mjög erfitt. Starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði býr vel samanborið við önnur Evrópuríki þegar kemur að því að fá frí í einn til tvo daga með þriggja daga fyrirvara en alls segjast tæp 36% eiga mjög auðvelt með að fá frí. Það er með hæstu hlutföllum sem mælast í Evrópu en einungis Slóvenía (48,1%) og Malta (41,4%) mælast með hærra hlutfall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert