Pétur Guðmann Guðmannsson, réttarmeinafræðingur á Landspítala, hefur krufið nærri 190 lík vegna óútskýrðra dauðsfalla hér á landi í ár, álíka mörg og krufin voru allt árið í fyrra.
Embætti landlæknis hefur ekki birt bráðabirgðatölur úr dánarmeinaskrá í ár þar sem skýrslugerð vegna andlátanna hefur dregist vegna álagsins. Þetta kemur fram í viðtali Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur við Pétur í Læknablaðinu.
„Ég reyni að forgangsraða,“ segir Pétur. Hann fær brátt liðsauka fjóra daga í mánuði. Snjólaug Níelsdóttir, sem er einnig sérmenntuð í réttarmeinafræði, flýgur frá Danmörku og kryfur með honum líkin.
Fram kemur hjá Pétri að margt hafi áhrif á vinnslutímann en hann kryfji strax og skrifi bráðabirgðaskýrslu. „Niðurstöður frá eiturefnafræðingum. Niðurstöður vefjasýna í smásjá sem stendur stundum á og tefur vinnu við lokaskýrslu.“ Hann eigi enn ólokið skýrslum vegna tuga þeirra 186 krufninga sem hann hafi gert á árinu. Þær elstu frá lokum maí.
Pétur hefur starfað einn að krufningunum allt þetta ár. Hann segir skyndidauðsföllum af óútskýrðum ástæðum hafa fjölgað í ár. „Tilfinningin er að þeim hafi fjölgað verulega.“ Pétur kryfur aðeins þá sem látast skyndilega; verða fyrir slysi, láta lífið fyrir eigin hendi eða eru myrtir. „Réttarkrufningar eru óvænt dauðsföll, engin sjúkdómssaga,“ lýsir hann.
Hann segir um 8-10% þeirra sem deyja hér á landi fara í réttarkrufningu. „Um 200 á ári, stöðug tala, en í ár eru þau rétt að verða 190 og þrír og hálfur mánuður eftir af árinu. Það hefur verið mikið að gera,“ segir Pétur. „Tilfinningin er að sjálfsvígum fjölgi.“
Hér er hægt að lesa viðtalið í heild.