Söfnuðu tíu þúsund undirskriftum á einum sólarhring

Geðhjálp stendur nú í átakinu 39.
Geðhjálp stendur nú í átakinu 39. mbl.is/Hallur Már

Áskorun Geðhjálpar til stjórnvalda, um að geðheilsa verði sett í forgang innan samfélagsins, hefur safnað tíu þúsund undirskrifum á fyrsta sólarhring undirskriftasöfnunarinnar. Átakið er kennnt við töluna 39, en það er bæði fjöldi sjálfsvíga sem framin voru á síðasta ári og meðaltal þeirra síðasta áratug.

„Tilgangurinn með því að birta tölu sjálfsvíga á Íslandi á síðasta ári er fyrst og fremst að beina sjónum að orsakaþáttum geðheilbrigðis. Þannig má auka umræðu um geðheilsu og orsakaþætti hennar og með því stuðla að framförum,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í fréttatilkynningu.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. mbl.is/Golli

„Áhersla samfélagsins þegar kemur að geðheilsu hefur um langt árabil verið fyrst og fremst á einkenni, meðferð og endurhæfingu á þeim vanda sem kemur upp í stað þess að horfa til orsakaþátta.“ Hann segir mikilvægt að samfélagið fari að endurmeta þessar áherslur og leggi meira úr því að vinna gegn orsökum slæmrar geðheilsu, frekar en að beita meðferðum og endurhæfingu eftir á.

„Meðganga, frumbernska, barnæska, skólakerfið, árin á vinnumarkaði og ellin. Það að koma í veg fyrir hluta þeirra áfalla, sem einstaklingur verður fyrir á æviskeiði sínu og draga úr áhrifum þeirra, bætir geðheilsu. Þangað ættum við að færa áherslur okkar.“

Undirskriftasöfnun Geðhjálpar má finna á 39.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert