Piltur fluttur á sjúkrahús eftir árás

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Flytja þurfti sextán ára gamlan pilt í austurbænum á bráðamóttöku Landspítalans í gærkvöldi eftir að hann varð fyrir líkamsárás af hálfu tveggja drengja.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að tilkynnt var um líkamsárásina skömmu fyrir hálftíu í gærkvöldi en hún var framin í Austurbænum (hverfi 108). Málið er í rannsókn lögreglu en árásarmennirnir eru 16 og 17 ára gamlir. Sá sem varð fyrir árásinni er meðal annars með brotna tönn.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Vesturbænum (hverfi 107) um klukkan 18 í gær en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og brot á vopnalögum. 

Lögreglan fór í eftirlitsferð á veitingastaði í Kópavogi og Breiðholti í gærkvöldi og var staðan almennt góð á þeim stöðum sem voru með opið, sóttvarnir í lagi og tveggja metra reglan virt, en margir veitingastaðir eru lokaðir bæði í Breiðholti og Kópavogi. 

Tilkynnt var um innbrot í Vogahverfinu um klukkan 22 í gærkvöldi. Þar hafði hurð verið spennt upp og farið inn. Engu var stolið en einhverjar skemmdir unnar. 

17 á 117

17 ára unglingur var stöðvaður á Reykjanesbraut skömmu eftir miðnætti á 117 km hraða þar sem heimilt er að keyra á 80. Haft var samband við forráðamann og eins var tilkynning send til barnaverndar. Annar ökumaður var einnig stöðvaður á svipuðum slóðum á 113 km hraða. 

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan bifreið á 142 km hraða á Suðurlandsvegi við Sandskeið en þar er heimilt að aka á 90 km/klst.  

Ökumaður var síðan stöðvaður í Austurbænum (hverfi 105) á þriðja tímanum í nótt en bifreiðin var ljóslaus. Í ljós kom að ökumaðurinn var væntanlega undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. 

mbl.is