„Höfum kannski sofið á verðinum“

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Sigurður Bogi

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn almennrar deildar lögreglunnar, segir að þau merki sem sáust á einkennisklæðnaði lögregluþjóns og vakið hafa hörð viðbrögð í dag, séu ekki í samræmi við stefnu lögreglunnar um að eyða fordómum og þjóna öllum íbúum jafnt og af jafnmikilli virðingu. „Þetta var ekki til þess fallið,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við að lögreglan harmi málið.

Merk­in vöktu at­hygli eft­ir að frétt var birt í morg­un á mbl.is, en mynd af lög­regluþjón­in­um fylgdi frétt­inni. Var um að ræða mynd úr safni sem tek­in var í mars árið 2018, en lög­regluþjónn­inn er þar við skyldu­störf. Á vesti lögregluþjónsins, sem jafnan er innan klæða, hafði verið komið fyrir þremur merkjum (e. patches), en einn þeirra hefur verið tengdur við hægri öfgaþjóðernishyggju. Er um að ræða svokallaðan Vínlandsfána, en teiknimyndakarakternum Punisher hafði verið bætt þar við.

Sýna oft blóðflokka, fæðingadaga barna eða gamla lögreglunúmerið

Ásgeir segir að merki sem þessi hafi verið í umferð í nokkur ár og að lögregluþjónar hafi sett þau á vesti sín, sem almennt eigi ekki að sjást. Þar hafi oft verið um að ræða merki með blóðflokki viðkomandi, fæðingadegi barns eða gamalt héraðslögreglunúmer. Þá hafi menn byrjað að skipta merkjum sín á milli og við aðila erlendis. Segist hann ekki hafa séð merki eins og þetta sem birtist í morgun áður eða álíka skilaboð. „Við höfum kannski sofið á verðinum með að þessi merki hafi verið borin svona,“ segir Ásgeir og bætir við að samkvæmt reglugerð um einkennisfatnað sé skýrt að engin merki eða annað slíkt eigi að sjást á fatnaðinum.

Myndin sem um ræðir, en sjá má merkin þrjú á …
Myndin sem um ræðir, en sjá má merkin þrjú á fatnaði lögregluþjónsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá segir hann að merkin sjáist almennt ekki þegar lögregluþjónar séu með upprennt, en fleiri myndir frá vettvangi þegar myndin var tekin sýna að lögregluþjónninn hafði þá rennt jakkanum upp og var vestið og þar af leiðandi merkin ekki sýnileg.

Skýr fyrirmæli um að fjarlægja öll merki

Ásgeir segir að skýr fyrirmæli hafi verið gefin út innan lögreglunnar í dag þar sem tekið sé fyrir öll merki. Segir hann að hugsanlega sé þar verið að „hengja bakara fyrir smið“ þar sem hann telji lögreglumenn alla jafna hafa notað þetta í fyrrgreindum tilgangi, t.d. með blóðflokk eða að hafa eitthvað sem minnti á fjölskylduna á „skrifstofunni“ sem fatnaðurinn sé í raun fyrir lögregluþjóna.

Lögregluþjónninn sem um ræðir sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún hefði ekki þekkt merkingu Vínlandsfánans og að merkið sem sýndi bláa línu í gegnum íslenska fánann sé tákn fyr­ir lög­regl­una og merk­i línu milli reglu og óreglu í sam­fé­lag­inu og að hún tengi það ekki við kynþátta­hyggju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert