Mannfólk ekki í hættu

Fé bíður þess að verða skorið niður vegna gruns um …
Fé bíður þess að verða skorið niður vegna gruns um riðuveiki. mbl.is/RAX

Matvælastofnun hefur óskað eftir sýnum frá bændum í Tröllaskagahólfi vegna sterks gruns um að riða hafi greinst í sauðfé sem var flutt frá Stóru-Ökrum að Grænumýri og Syðri-Hofdölum í Blönduhlíð og að Hofi í Hjaltadal.

Stofnunin ítrekar í tilkynningu að engar vísbendingar séu um að mannfólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né af neyslu afurða þess, hvorki kjöts né innmatar né mjólkur. Hvorki neytendur né starfsmenn sauðfjárbúa eða sláturhúsa er í hætta vegna riðuveiki í sauðfé.

Unnið er að því að ná utan um útbreiðslu riðunnar en óttast er að farga þurfi á þriðja þúsund fjár á umræddum bæjum, þ.e. ef smit reynist útbreitt. 

Riðuveiki hefur ekki verið útbreidd hér á landi og barátta gegn henni gengið vel. Einstaka tilfelli greinast þó við og við en fjöldi ára er síðan eins útbreitt smit greindist og nú er óttast.  Reglugerð bannar verslun með fé og fjárflutninga til lífs milli bæja á sýktum svæðum í 20 ár eftir síðasta riðutilfelli. Hér má fræðast um riðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert