Stormfuglar hljóta alþjóðleg verðlaun

Einar Kárason er höfundur Stormfugls.
Einar Kárason er höfundur Stormfugls. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einar Kárason og sænskur þýðandi hans, John Swedenmark, hljóta alþjóðleg bókmenntaverðlaun Menningarhúss og Borgarleikhúss Stokkhólms (Kulturhuset Stadsteatern) fyrir skáldsöguna Stormfugla.

Verðlaunin eru veitt framúrskarandi erlendum skáldverkum sem þykja sérstaklega vel þýdd yfir á sænsku. Verðlaunin, 150.000 sænskar krónur (ríflega tvær milljónir íslenskra króna) skiptast jafnt á milli höfundar og þýðanda að því er segir í tilkynningu.

Úr rökstuðningi dómnefndar:

Með Stormfuglum blæs Einar Kárason nýju lífi í klassíska þemað um baráttu mannsins við náttúruna. Örvæntingunni um borð í togaranum í ofsaveðrinu er lýst á svo hárbeittan hátt að lesandinn finnur ískuldann streyma af blaðsíðunum. Lestrarupplifun sem fær hárin til að rísa og magnast upp í framúrskarandi þýðingu Johns Swedenmarks.

Kulturhuset Stadsteaterns internationella litteraturpris voru fyrst veitt 2016. Fyrri handhafar verðlaunanna eru alþjóðlegir verðlaunahöfundar, t.d. Nóbelsskáldið Olga Tokarczuk og George Saunders, sem hlotið hefur bókmenntaverðlaunin Man Booker. Bækur sem tilnefndar voru í ár, ásamt Stormfuglum, voru meðal annars The Milkman eftir Anna Burns sem hlaut Man Booker verðlaunin 2018 og hin margverðlaunaða Days Without End eftir Sebastian Barry.

Kulturhuset Stadsteatern er menningarmiðstöð og borgarleikhús Stokkhólms. Þar mætast listgreinar eins og leikhús, dans, myndlist, hönnun, bókmenntir, tónlist og kvikmyndir.

Skáldsagan Stormfuglar kom út hjá Máli og menningu árið 2018. Hún segir á áhrifamikinn hátt frá örvæntingarfullri baráttu íslenskra sjómanna við miskunnarlaus náttúruöfl. Útgáfurétturinn hefur þegar verið seldur til fjórtán landa. Forlagið Thorén & Lindskog AB gaf út verkið í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert