Barinn í bílnum og hnífur upp að hálsi

Tveir menn um tvítugt eru sagðir hafa ráðist á ungmennin.
Tveir menn um tvítugt eru sagðir hafa ráðist á ungmennin. mbl.is/Ófeigur

Óhugnanlegt rán átti sér stað í Sólheimum í Reykjavík í gær. Tvö ungmenni 16 og 18 ára sátu  inni í bíl þegar hurðin var skyndilega rifin upp. Tveir menn um tvítugt hófu barsmíðar á 18 ára strák og lögðu hníf upp að hálsi hans áður en þeir fóru ránshendi um bílinn. Auk þess voru skór og peysa stráksins tekin.

Lilja Rut Þórarinsdóttir er móðir 16 ára stúlku sem sat í bílnum ásamt kærasta sínum. „Þau sitja inni í bíl þegar dyrnar eru opnaðar og ráðist að þeim. Hann var laminn og ógnað með hníf þar sem hann sat inni í bílnum. Honum var haldið en hún náði að komast í burtu. Honum var sagt að fara úr peysunni og skónum sem voru tekin af honum,“ segir Lilja. 

Vildi ekki vera heima hjá sér 

Að sögn hennar hefur hún eftir ungmennunum að ræningjarnir hafi verið tveir menn um tvítugt. Annar hafi talað íslensku en hinn ensku. Hún segir að parið sé mjög skelkað eftir árásina. „Hann hefur líklega fengið heilahristing þar sem hann var barinn í höfuðið. Hann er með kúlu og mar og var óglatt þegar hann fór á spítala. Eins er hann með brákuð rifbein og tognaður,“ segir Lilja. 

Að sögn hennar voru verðmæti tekin úr bílnum auk þess sem bíllyklarnir voru teknir. „Þau voru hrædd og hann vildi ekki vera heima sér í nótt því þeir tóku bíllyklana þar sem húslyklarnir eru einnig geymdir. Því vildi hann ekkert vera heima hjá sér í nótt,“ segir Lilja. 

Hún segir að hnífurinn sem notaður var í ráninu hafi verið borinn að hálsi stráksins. „Þeir settu hnífinn uppi að hálsi hans á meðan þeir tæmdu bílinn. Hann átti að hafa hendur á stýri og honum gert ljóst að ef hann myndi hreyfa sig þá ... já honum var ógnað með hnífnum,“ segir Lilja. 

Ber að ofan og á sokkaleistunum 

Hún segir að strákurinn telji sig hafa verið með meðvitund en man engu að síður ekki eftir að hafa verið kýldur í rifbeinin. „Hann hefur kannski verið orðinn eitthvað vankaður,“ segir Lilja. 

Hún segir að eftir árásina hafi strákurinn verið ber að ofan og á sokkaleistunum. „Svo hljóp hann í næsta hús og fékk að hringja. Fólkið þar gaf honum vatnsglas og lánaði honum jakka áður en hann fékk að hringa,“ segir Lilja.    

Ekki hefur náðst á lögreglu í morgun vegna málsins. 

Hins vegar sendi hún þessa tilkynningu í gærkvöldi: 

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja manna vegna rannsóknar hennar á ráni í Sólheimum við Langholtskirkju á níunda tímanum í gærkvöld, en tilkynning um málið barst kl. 20.20. Tveir grímukæddir menn komu að bifreið sem þarna var og bæði ógnuðu fólkinu sem í henni var með eggvopni og slógu til ökumannsins sem hlaut áverka af. Síðan rændu þeir nokkru af munum úr bifreiðinni.

Þeir sem búa yfir vitneskju um málið eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is  eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert