Forseti sendir samúðarkveðjur til ástvina þeirra látnu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, minnti á mikilvægi þess að …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, minnti á mikilvægi þess að samkomutakmarkanir væru virtar. Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson forseti sendir ástvinum þeirra tveggja sem létust vegna kórónuveirunnar í nótt samúðarkveðjur í facebookfærslu frá embætti forseta Íslands í dag.

Í færslunni minnist Guðni á hópsmitið sem upp kom á Landakoti í vikunni. „Vonir hljóta að standa til þess að allra leiða verði leitað til að koma í veg fyrir slíkt áfall á ný. Að sama skapi er sárt að sjá eða lesa fregnir af því að fólk taki veiruvandann ekki alvarlega, láti jafnvel skammtímahagsmuni vega þyngra þangað til í óefni er komið.“

Þá minnir forseti á hertar fjöldatakmarkanir og skorður við mannamótum og segist bjartsýnn á að landsmenn geti haldið venjuleg jól í ár sé sóttvörnum sinnt.

„Þegar allt kemur til alls njótum við Íslendingar þó enn þeirrar samstöðu og þeirrar þrautseigju sem býr með okkur. Við getum gert þetta saman og næstu vikurnar verðum við að gera okkar allra besta í þessari baráttu,“ segir forseti.

Forseti segir karlalið Vals í knattspyrnu hafa „hlaupið mjög illa á sig“ er liðið fagnaði Íslandsmeistaratitli á föstudag, en hrósar aftur á móti kvennaliði Breiðabliks fyrir hófsaman fögnuð og virðingu fyrir samkomutakmörkunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert