Íhugar að kæra til Landsréttar

mbl.is/Hallur Már

Lárus Sigurður Lárusson segist vera að skoða að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar þar sem hann er ekki sammála niðurstöðunni. Hann hefur borið hana undir aðra lögmenn sem hafa tekið undir þá afstöðu hans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lárusi.

Líkt og fjallað var um í Fréttablaðinu og mbl.is birti að hluta var Lár­usi vikið úr starfi skipta­stjóra þrota­bús fast­eigna­fé­lags­ins Þórodds ehf. vegna brots á starfs- og trúnaðarskyld­um sín­um sem skipta­stjóra. Úrsk­urður þessa efn­is var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykja­vík­ur á föstu­dag­inn.

„Í niðurstöðunni er ekki efast um lagaheimildir skiptastjóra til þess að ráðstafa eignum þrotabúa. Mikið af þeim aðfinnslum sem voru gerðar voru minniháttar og eiga ekki að valda frávikningu skiptastjóra. Ég hafna því að hafa tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni búsins og byggir sú fullyrðing dómsins á huglægu mati á aðstæðum, þar sem m.a. litið er fram hjá áhrifum Covid-19 faraldursins á efnahagslíf þjóðarinnar," segir Lárus í tilkynningu.

Þóroddsstaðir við Skógarhlíð 22.
Þóroddsstaðir við Skógarhlíð 22. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Niðurstaðan byggir líka á röngum upplýsingum um söluþóknun fasteignasala. Í úrskurðinum er á því byggt að fasteignin hafi verið í einkasölu en staðreynd málsins er að hún var í almennri sölu og söluþóknun tók mið af því skv. verðskrá. Þá er það viðtekin venja þegar fasteignasala er rekinn samhliða lögmannstofu að eignir sem þessar séu seldir í gegnum fasteignasölu viðkomandi lögmannsstofu sem annast búskiptin," segir Lárus enn fremur í tilkynningunni.

Hann segir þar að fasteignin sem um ræðir sé sérstök og ekki hægt að verðmeta eins og venjulegt íbúðarhúsnæði. Hún lúti því öðrum lögmálum í sölu enda fjárfesting og verðmæti fjárfestinga tekur sveiflum eftir hreyfingum í efnahagslífi. „Ég hef undir höndum tvö verðmót frá fasteignasölum sem styðja söluverð eignarinnar. Ekki var aflað dómkvadds mats um verðmæti eignarinnar. Ástand fasteignarinnar að öðru leyti var afar bágborið og ég hef undir höndum fjölda ljósmynda sem teknar voru af ástandi hennar bæði innandyra og utan en þær lágu ekki fyrir í niðurstöðu héraðsdóms,“ er ennfremur haft eftir Lárusi í tilkynningu.

Lárus telur ennfremur að málsmeðferðin fyrir dómi sé óskýr þar sem aldrei var þingfest ágreiningsmál heldur eingöngu boðað til sáttafunda um aðfinnslurnar. Af þessu leiðir t.a.m. að sannsögli var ekki brýnt fyrir aðilum sem mættu á fund til að lýsa atvikum eins og gert er við vitnaskýrslur.

Frétt Fréttablaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert