Sjö ökumenn þurftu aðstoð í óveðrinu

Björgunarsveitir á Austurlandi höfðu í nógu að snúast í morgun enda mikill vindur í landshlutanum og gul viðvörun Veðurstofunnar í gildi. Skömmu fyrir hádegi var óskað eftir aðstoð björgunarsveita í Fagradal, milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða, en þar höfðu bílar fest. „Snælduvitlaust rok og ísing á veginum,“ hefur Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, eftir björgunarsveitarfólki á staðnum.

Kyrrstæðir bílar hafi færst til í vindinum og lítið skyggni gert aðstæður erfiðari, eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan. Alls þurftu sjö á aðstoð að halda en þeir höfðu ýmis fest bíla sína eða lent utan vegar. Einn þeirra varð fyrir minni háttar meiðslum og fékk hann aðhlynningu á heilsugæslu Reyðarfjarðar. Veginum um Fagradal var lokað stuttu síðar og lauk aðgerðum á vettvangi um klukkan eitt.

Þakplötur og lausamunir á flug

Um svipað leyti aðstoðaði björgunarsveit fólk í bíl á Öxi sem var í vandræðum vegna lélegs færis og skyggnis. Var þeim fylgt niður að fjallveginum. Þá var björgunarsveit á Seyðisfirði kölluð út vegna þakklæðningar sem var farin að fjúka, sem og aðrir lausamunir. Björgunarsveitarfólk sinnti þeim verkefnum og þurfti einnig að koma böndum á bát sem hafði losnað frá bryggju. Í tilkynningu frá Landsbjörg er þó vakin sérstök athygli á því að engin trampólín hafi farið á flug á Seyðisfirði.

Björgunarsveitarmenn festu þakplötur sem höfðu losnað í veðrinu.
Björgunarsveitarmenn festu þakplötur sem höfðu losnað í veðrinu. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert