Borga 49 þúsund minna á mánuði

Fleiri ráða við greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum nú en áður.
Fleiri ráða við greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum nú en áður. mbl.is/Golli

Met hafa verið slegin í hreinum nýjum útlánum á síðustu mánuðum og hafa heimilin einkum verið að sækjast eftir óverðtryggðum lánum hjá bönkunum.

Lækkun vaxta virðist því vera efnahagsóvissunni yfirsterkari, enn sem komið er, og hefur haldið uppi talsverðri eftirspurn á fasteignamarkaði á meðan framboð hefur verið að dragast saman að því er segir í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Hefðbundin þriggja herbergja íbúð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fer á um 47 milljónir króna í dag en var á um 45 m.kr. fyrir ári, miðað við núverandi verðlag. Sé miðað við bestu kjör bankanna hverju sinni hefur mánaðarleg greiðslubyrði vegna slíkrar íbúðar farið úr 175 þúsund krónum í maí í fyrra í 126 þúsund krónur í ágúst á þessu ári. Á landsbyggðinni hefur greiðslubyrði fyrir þriggja herbergja íbúðir í fjölbýli farið úr 117 þúsund krónum að jafnaði í 77 þúsund krónur á sama tímabili.

„Talsverðar sviptingar hafa átt sér stað á lánamarkaði undanfarið ár í ljósi mikilla stýrivaxtalækkana. Þessar vaxtalækkanir hafa orðið til þess að hleypa nýju lífi í lánamarkaðinn. Stýrivextir eru nú 1% en fóru í fyrsta sinn undir 3,5% á síðari hluta árs 2019. Það verður athyglisvert að fylgjast með þróun peningastefnunnar en Seðlabankinn hefur gefið í skyn að þótt stýrivextir muni líklega ekki haldast svo lágir til frambúðar, þá geti Ísland verið að sigla inn í nýtt vaxtaumhverfi þar sem vextir verði almennt lægri en áður.

Stýrivaxtalækkanirnar hafa orðið til þess að vextir á íbúðalánum hafa lækkað að sama skapi, sérstaklega á óverðtryggðum lánum sem eru jafnan mun næmari fyrir stýrivaxtabreytingum. Vextir eru þó sögulega lágir bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Lægstu vextir á verðtryggðum lánum eru nú 2% en voru 2,9% fyrir ári á meðan lægstu vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru um 3,5% en voru um 5,2% fyrir ári,“ segir í skýrslunni. 

Vextir á óverðtryggðum hafa verið hagstæðari í þrjú ár

Ef miðað er við lægstu vaxtakjör bankanna á íbúðalánum eru vextir á óverðtryggðum lánum nú nánast þeir sömu og þeir voru á verðtryggðum lánum í maí 2019.

Því er ljóst að fleiri ráða við greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum nú en áður. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána getur verið sveiflukenndari en greiðslubyrði verðtryggðra lána, þar sem þau bera yfirleitt breytilega eða fasta vexti til aðeins nokkurra ára og því getur greiðslubyrðin aukist ef vextir fara að hækka á nýjan leik.

Á verðtryggðum lánum breytist greiðslubyrðin ekki eins mikið, en á móti hækka eftirstöðvar lánsins í takt við verðbólguna. Munurinn á greiðslubyrði milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána hefur ekki verið jafn lítill síðan 2012,“ segir í skýrslu HMS.

Frá árinu 2017 hafa vextir á óverðtryggðum lánum að mestu verið hagstæðari en á verðtryggðum lánum. Hingað til hefur ekki verið á allra færi að taka óverðtryggt lán sökum hárrar greiðslubyrði en nú er það orðinn raunhæfur kostur fyrir mun fleiri en áður og hafa óverðtryggð lán verið að sækja hratt í sig veðrið.

Fleiri greiða upp en taka ný

„Ljóst er að margir lántakendur hafa nýtt sér þetta breytta vaxtaumhverfi til þess að endurfjármagna lánin sín og fara úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán. Á tímabilinu apríl-september voru hrein ný útlán á verðtryggðum lánum neikvæð um 31,7 ma.kr sem þýðir að mun fleiri voru að greiða upp verðtryggð lán en taka ný. Hrein ný óverðtryggð útlán voru hins vegar jákvæð um 203,1 ma.kr. á sama tímabili, sem er næstum fjórfalt meira en allt árið í fyrra. Miklar sviptingar hafa orðið á hlutdeild lánastofnana í útlánum til heimilanna þar sem bankarnir hafa verið fyrirferðarmestir í útlánum undanfarna mánuði.

Áður höfðu lífeyrissjóðir verið mjög umsvifamiklir í útlánum eftir að hafa útvíkkað lánareglur sínar árið 2015 og buðu upp á hagstæðustu vaxtakjörin á verðtryggðum lánum. Því er um töluverðar sviptingar að ræða. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 námu til að mynda hrein ný útlán hjá bönkunum 214,5 mö.kr., en aðeins 15 ma.kr. hjá lífeyrissjóðunum og þar af hafa þau verið neikvæð um 13 ma.kr. í júlí-sept. Það sama á við um HMS eða húsnæðissjóð þar sem mun meira er um uppgreiðslur en ný lán. Myndin hér að neðan sýnir hversu mikill útlánavöxtur bankanna hefur verið undanfarna mánuði með hvern metmánuðinn í útlánum á fætur öðrum,“ segir enn fremur í skýrslu HMS.

mbl.is