„Við erum að fara að eygja markið í langhlaupinu“

Þórólfur er bjartsýnn en biðlar til landsmanna að láta ekki …
Þórólfur er bjartsýnn en biðlar til landsmanna að láta ekki deigan síga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að fólk slaki ekki á einstaklingssmitvörnum svo hægt sé að halda jólin á sem eðlilegastan máta. Hann segir áframhaldandi takmarkanir nauðsynlegar en þó megi mögulega sjá fyrir endann á faraldrinum snemma á næsta ári.

Er nauðsynlegt að halda tíu manna samkomubanni til streitu þegar smitum fækkar og nýgengi lækkar stöðugt?

„Það eru þessar takmarkanir sem hafa skilað þessum árangri sem við erum nú að sjá, ég held að það sé gott að hafa það í huga. Við erum enn þá með smit úti í samfélaginu og þess vegna held ég að við þurfum að fara mjög hægt í það að slaka á þeim,” segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

„Það er bara þetta grunnatriði sem við höfum alltaf verið að benda á; það er þessi hópamyndun, af hvaða toga sem hún er, sem eykur hættuna gríðarlega,” segir hann. „Ég held að það sé nauðsynlegt að ná þessu aðeins niður áður en við förum að slaka á.”

Megum ekki hrasa á síðustu metrunum

Þórólfur hvetur landsmenn eindregið til að „halda áfram því góða starfi sem allir hafa verið að inna af hendi núna undanfarið” og segir það sérstaklega mikilvægt núna rétt fyrir jól, þar sem vonarglæta leynist handan sjóndeildarhringsins.

„Kannski erum við að fá bóluefni á fyrri hluta næsta árs, sem kemur okkur kannski að einhverju leyti út úr þessu og það er náttúrulega okkar von,“ segir hann.

„Það væri voða slæmt, rétt áður en við erum komin í mark, að vera búin að fá einhverja stóra bylgju yfir okkur. Ég túlka þetta þannig að við erum að fara að eygja markið í langhlaupinu, og við megum ekki hrasa og detta á síðustu metrunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert