Furðar sig á gluggagægjum lögreglunnar

Lögregluþjónn gægist inn um gluggann hjá Þórdísi til að athuga …
Lögregluþjónn gægist inn um gluggann hjá Þórdísi til að athuga hve margir séu innandyra. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, íbúi í Hafnarfiði, furðar sig á að lögreglan hafi ekki brýnni verkefnum að sinna en að gægjast inn um glugga fólks. Fjórir lögregluþjónar komu á heimili hennar á föstudagskvöld til að athuga hvort fjöldatakmarkanir sóttvarnareglna væru brotnar á heimilinu.

Tíu manns mega mest koma saman um þessar mundir. Í samtali við mbl.is segist Þórdís ekki viss um hversu margir voru nákvæmlega á heimilinu, en fjöldinn hefur verið eitthvað í kringum það. Hún bendir þó á að reglurnar gildi um „rými“ en hús hennar sé á tveimur hæðum og telji þó nokkur rými. Vinir sextán ára sonar hennar hafi verið saman komnir vegna skólaverkefnis en svo ílengst.

Lögreglumaður setur fótinn í dyragættina til að varna því að …
Lögreglumaður setur fótinn í dyragættina til að varna því að Þórdís geti lokað dyrunum. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís segist ekki vita hvernig lögreglan hafi fengið veður af því að gestir væru á heimilinu. Lögreglumennirnir hafi bankað upp á um klukkan 23:30 og óskað eftir að hún gæfi upp nafn og kennitölu og hleypti þeim inn. „Ég steig út fyrir og spjallaði við þá en hleypti þeim ekki inn,“ segir Þórdís. Eftir að Þórdís neitaði var kallað í varðstjóra sem kom skömmu seinna við annan mann. Þá voru lögreglumennirnir orðnir fjórir.

„Þegar varðstjórinn kom steig ég aftur út til að tala við hann og annan lögreglumann. Hann stillti sér síðan upp fyrir útidyrnar þannig að ég komst ekki inn í húsið,“ segir Þórdís sem fékk þó á endanum að fara inn og sækja skilríki. Stuttu áður lagðist hann á gluggann til að reyna að sjá hve margir væru inni í herberginu.

Þórdís segist hafa minnt lögreglumennina á stjórnarskrána og friðhelgi heimilisins, sem þeim hafi ekki virst annt um. „Varðstjórinn setti fótinn á þröskuldinn til að koma í veg fyrir að ég lokaði dyrunum,“ segir hún. Það finnst henni alvarlegt inngrip enda byrji friðhelgi einkalífs við þröskuldinn að húsinu.

Lögreglumennirnir báru búkmyndavélar og áður en þeir fóru skipuðu þeir henni að „reka krakkana út“ og tilkynntu að þær ættu upptökur af samskiptunum og hún eigi rétt á lögfræðingi „á öllum stigum málsins“ segir Þórdís sem segist ekki átta sig á hvaða stig það ættu að vera en býst allt eins við ákæru.

mbl.is