Gerir alla tjáningu miklu erfiðari

Nemendur og kennarar Réttarholtsskóla þurfa að bera grímu.
Nemendur og kennarar Réttarholtsskóla þurfa að bera grímu. Eggert Jóhannesson

„Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt að tjá sig með grímuna. Þegar kennarar þurfa bæði að halda líkamlegri fjarlægð og geta ekki sýnt svipbrigði þá minnkar nærveran,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara. Vísar hún þar til grímunotkunar í grunnskólum.

Nýverið var grímuskylda barna í fimmta til sjöunda bekk afnumin, en áfram þurfa kennarar að bera grímu við kennslu. „Nemendur upplifa ákveðin óþægindi við grímuna enda eiga þau mjög erfitt með að tjá sig með grímuna á sér. Þetta er hópur sem er að þjálfa sig í líkamstjáningu,“ segir Þorgerður og bætir við að sama eigi við um kennara.

„Kennarar nota líkamstjáningu við kennslu og þessi fínu blæbrigði skipta mjög miklu máli. Hjúkrunarfræðingar hafa sagt frá því hversu erfitt hefur verið að sýna umhyggju í þessum faraladri. Það sama gildir um kennara. Mér finnst oft ágætt að líkja þessu við leikara sem á að túlka dramtískt eða gleðilegt hlutverk með grímu.“

Verið með grímu frá því í haust

Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að fjölmargir hafi leitað til heyrnarfræðinga frá því að faraldurinn kom fyrst upp. Er grímum þar um að kenna, en þeir sem áður gátu notfært sér varalestur eiga nú erfitt með að skilja fólk með grímu. 

Spurð hvort hún hafi orðið vör við sambærilegar kvartanir innan grunnskólanna kveður Þorgerður nei við. „Ég hef ekki heyrt um slíkt. Grímuskylda hefur auðvitað bara verið í þrjár vikur þó að margir kennarar hafi verið með grímu frá því í haust. Nemendur sem sjá eða heyra illa fá þó yfirleitt að sitja fremst í stofunni.“

mbl.is