Landspítalinn fær svigrúm til að mæta halla

Landsspítalinn við Hringbraut.
Landsspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Þórður Arnar

„Gert er ráð fyrir að Landspítali fái svigrúm til að vinna upp hallareksturinn á þremur árum. Fyrirhugaður er fundur í ráðuneytinu með Landspítala til að ræða þessi mál síðar í vikunni.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu. 

Stóð ekki til að skera niður

Landspítalinn hefur farið fram úr fjárframlögum í rekstri síðustu ár. Uppsafnaður halli Landspítalans nam 3,8 milljörðum í lok árs 2019.

Fyrir lá að vinna þyrfti upp hallarekstur innan ákveðins tímabils og voru áætlanir um það í drögum að rekstaráætlun Landspítalans. Einnig hefur komið fram að stjórnendur Landspítalans ætluðu sér að óska eftir auknu svigrúmi til að vinna upp hallann.

Ekki var gert ráð fyrir 4,3 milljarða niðurskurði í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 eins og skilja mátti fréttaflutning.

Á málefnasviði 23, sem fjallar um rekstur sjúkrahúsa, er gert ráð fyrir 13,2% aukningu sem nemur 13,9 milljörðum. Af þessum 13,9 milljörðum eru um 8,4 milljarðar vegna stofnkostnaðar, það er NLSH.

0,5% aðhaldskrafa er gerð á allar heilbrigðisstofnanir landsins sem samsvarar 559 milljónum en útgjaldasvigrúm málaefnasviðsins er 1,8 milljarðar rúmlega þreföld aðhaldskrafan.

Málefnasvið 23 - sjúkrahúsþjónusta - í fjárlagafrumvarpi fyrir 2021
Málefnasvið 23 - sjúkrahúsþjónusta - í fjárlagafrumvarpi fyrir 2021 Ljósmynd/Skjáskot - fjárlagafrumvarp

Bent er á að RÚV hafi undanfarna daga fjallað um drög að rekstaráætlun Landspítalans.

„Af umfjölluninni mátti ráða að Landspítala verði gert að sæta 4,3 milljarða króna hagræðingarkröfu í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Eins og að framan greinir er það ekki rétt þar sem aðhaldskrafan er um 400 milljónir króna,“ segir í tilkynningunni. 

Á móti fær spítalinn 1,3 milljarða króna til að mæta raunvexti vegna fjölgunar landsmanna og hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra, auk viðbótarfjármagns til að mæta launa- og verðlagsbreytingum. Þá liggur jafnframt fyrir að Landspítala verða bætt aukin útgjöld vegna COVID-19 faraldursins.

mbl.is