Kemur í ljós hve há fjárhæðin verður

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á næstu dögum eða vikum kemur í ljós hversu háa fjárhæð Ísland þarf að greiða fyrir að hafa farið fram úr losunarheimildum Kyoto-samningsins á undanförnum árum.

Þetta kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Hún sagði að Íslendingar muni gera þann reikning upp eins og þeim ber samkvæmt skuldbindingum sínum og að uppgjörið verði eins hagkvæmt fyrir ríkið og hægt er.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Sigmundur Davíð vísaði í frétt Fréttablaðsins þar sem formaður loftslagsráðs talaði um að hægt sé að kaupa svokallaðar CER-einingar og greiða líkast til innan við 200 milljónir króna í stað þess að greiða milljarða og að hafa þurfi hraðar hendur ef kaupa eigi þær einingar sem til þarf. Þingmaðurinn sagði þetta vera mun ódýrari lausn „en gefur hefur verið til kynna með hræðsluáróðri“.

Katrín sagði Ísland hafa tekið á sig enn meiri skuldbindingar varðandi samdrátt í losun mengunar út í andrúmsloftið með þátttöku í Parísarsáttmálanum. Hún sagði mikilvægt að Ísland líkt og aðrar þjóðir greini tækifæri í því að draga úr losun og vinna sína framleiðslu með eins umhverfisvænum hætti og unnt er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert