„Vísbendingar um að þetta sé að fara upp í veldisvöxt“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tölur dagsins í takt við það sem embættið hafi gert ráð fyrir og spáð miðað við þann fjölda smita sem hafa greinst utan sóttkvíar undanfarna daga. Segir hann að ef sama þróun haldi áfram gæti daglegur fjöldi smita margfaldast og orðið nokkrir tugir, jafnvel um 100 dagleg smit, svipað og á hápunktinum fyrir nokkrum vikum.

„Þetta gæti gerst mjög hratt,“ segir Þórólfur um hver tímarammi slíkrar þróunar gæti verið. „Það eru vísbendingar um að þetta sé að fara upp í veldisvöxt aftur,“ segir hann ef ekkert verði til þess að breyta þróuninni. Segist Þórólfur hafa miklar áhyggjur af ástandinu. „Þetta er eitthvað sem við viljum auðvitað ekki að fari af stað aftur.“

Hann segist hafa mestar áhyggjur af þeim fjölda sem greinist utan sóttkvíar, en í dag var sá fjöldi 11 af 20 smitum.

Þórólfur bendir á að alvarleg veikindi vegna veirunnar komi venjulega fram um viku eftir að smit greinist. Því gæti hækkun í smittölum núna birst okkur eftir um viku í alvarlegum veikindum og álagi á sjúkrahúsum.

Spurður út í prófatímabil í skólum og jólaverslun og hvernig hann sjái slíkt á næstu dögum og vikum segir Þórólfur að hann ætli ekki að tala um einstaka viðburði, en að í gildi séu ákveðnar takmarkanir í dag samkvæmt reglugerð og hann vonist til að allir virði það. Segir hann mikilvægt að allir forðist hópamyndanir sem oft tengist jólahaldi og jólaundirbúningi. „Öll hópamyndun í kringum þessa stemningu sem myndast er varasöm,“ segir hann um verslunargleði í kringum svartan föstudag sem er í dag.

Bendir Þórólfur á að aukin umferð fólks endurspeglist í þessum nýju hækkandi tölum.

Þórólfur skilaði í vikunni tillögum til ráðherra um næstu skref eftir 2. desember, þegar núverandi reglugerð rennur út. Segir hann það hafa verið gert þegar allt var á réttri leið, en í tillögunum var hins vegar fyrirvari um endurskoðun ef breytingar yrðu. „Ég er að skoða það núna hvort koma þurfi til nýrra tillagna,“ segir Þórólfur.

Spurður út í það hvort þróunin síðustu daga komi alveg í veg fyrir að hann muni mæla með einhverjum tilslökunum segir Þórólfur að hvort sem staðan líti vel út eða ekki þá hafi hann alltaf sagt að skynsamlegt sé að fara hægt í allar afléttingar. „Það gildir sérstaklega þegar við sjáum vöxt [í tölum].,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert