Stærsti þjóðgarður Evrópu hafi mikið aðdráttarafl

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, er bjartsýnn á að frumvarp um stofnun Hálendisþjóðgarðs verði samþykkt og segir að þingmenn og fólk hvaðanæva af landinu sé hlynnt frumvarpinu.  

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, birti fyrirvara Framsóknarflokksins vegna frumvarpsins fyrr í dag. Guðmundur segist þekkja til þeirra fyrirvara og það sé eðlilegt að flokkar setji fyrirvara við mál.  

„Það er bara eitthvað sem kemur til umræðu í þinginu. Við bara tökumst á við að reyna að greiða úr sem flestu sem hægt er í þinginu í samvinnu við umhverfis- og samgöngunefnd. Ég kvíði því ekki,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.  

„Ég er mjög bjartsýnn á að þetta verði samþykkt. Að baki þessu frumvarpi liggur vinna þverpólitískrar nefndar allra flokka sem eiga fólk á þingi og með fulltrúum sveitarfélaganna. Við kynntum drög að frumvarpinu í samráðsgátt fyrir um ári síðan og við höfum unnið úr athugasemdum og gert ýmsar breytingar eftir ítarlegt samtal við m.a. sveitarfélögin, sérlega er snýr að skipulagsvaldinu. Ég held að það sé mun víðtækari sátt um þetta núna heldur en var. Það er mín tilfinning.“ 

Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um þriðjung af landinu. Myndin er …
Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um þriðjung af landinu. Myndin er af Laugafelli upp af Eyjafirði, þar sem Ferðafélag Akureyrar er með skála. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarfélögin mun sáttari en áður

Þegar drög að frumvarpinu litu dagsins ljós fyrir um ári síðan gagnrýndu forsvarsmenn ýmissa sveitarfélaga sem liggja að hálendisþjóðgarðinum frumvarpið. Guðmundur segist hafa lagt ríka áherslu á að mæta sjónarmiðum sveitarfélaganna þegar það var hægt. Þannig verður skipulagsvald sveitarfélaga t.a.m. ekki skert og er það ein af helstu breytingunum sem hafa átt sér stað á frumvarpinu síðan drög að því voru kynnt.  

„Minn skilningur er sá að flest sveitarfélögin séu mun sáttari við málið eins og það er lagt fram núna heldur en þau voru,“ segir Guðmundur. Hann hafi rætt við sveitarfélögin um þau tækifæri sem felist í Hálendisþjóðgarði.  

„Þjóðgarður skapar opinber störf heima í héraði, það verður ráðist í að byggja ákveðna innviði, þar með talið gestastofur þar sem við erum að leggja áherslu á að nýta húsnæðið sem er fyrir hendi og gera breytingar á því. Ég skynja mikinn áhuga á því sem býr til störf,“ segir Guðmundur.  

Fólk vilji heimsækja slíkt land

Að hans mati er það þó ekki einungis ferðaþjónustan úti á landi sem hagnast á Hálendisþjóðgarði.  

„Það að Ísland eigi stærsta þjóðgarð Evrópu er náttúrulega gríðarlega mikið aðdráttarafl. Þannig getur þessi þjóðgarður verið lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í heild sinni á Íslandi ekki síst í endurreisn hennar eftir kórónaveirufaraldurinn, því fólk vill heimsækja land sem tekur jafn djarfa ákvörðun og að taka 30% af landinu undir þjóðgarð til þess að vernda þar náttúruna og búa til atvinnutækifæri á svæðunum í sátt við náttúruna.“ 

mbl.is fjallaði í morgun um mál ferðaþjónustufyrirtækis í Öræfasveit sem sérhæfir sig í jökla- og íshellaferðum. Fyrirtækið sér fram á 75-80% samdrátt vegna kvótaúthlutunar á Breiðamerkurjökli, sem er innan Vatnajökulsþjóðgarðs, en fyrirtækið má nú einungis fara með 38 ferðamenn upp á jökulinn daglega. Eigendur fyrirtækisins gagnrýndu það að ekki hafi verið litið til þess að fyrirtæki þeirra væri í heimabyggð við úthlutunina og sögðu að fyrirtækin á svæðinu hefðu lent verst í kvótaúthlutuninni.  

Guðmundur segir kvótaúthlutanir ekki algengar innan þjóðgarða hérlendis en stundum þurfi að útdeila takmörkuðum gæðum.  

„Það er þá gert til þess m.a. að auka öryggi ferðamanna eða til verndar náttúrunni og þá til þess að takmarka fjöldann vegna þess að það er ekki hægt að taka á móti of mörgum. Það er gert ráð fyrir því að það sé hægt að grípa til svona ráðstafana en þetta er ekki stór hluti af þeirri starfsemi sem fram fer innan Vatnajökulsþjóðgarðs,“ segir Guðmundur.  

Helmingur svæðisins sem er undir í Hálendisþjóðgarði er nú þegar …
Helmingur svæðisins sem er undir í Hálendisþjóðgarði er nú þegar friðað.

Áhersla á eflingu byggða

Er litið til þess hvar fyrirtækin eru staðsett þegar kvótanum er úthlutað?   

„Eitt af markmiðum laganna um Vatnajökulsþjóðgarð er að reyna að efla atvinnu í tengslum við þjóðgarðinn. Við gerð frumvarpsins um Hálendisþjóðgarð lagði ég áherslu á þetta atriði og sér þess merki í frumvarpinu en þar er gengið lengra en í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð hvað þetta varðar. Samkvæmt frumvarpinu má m.a. líta til fjárhæðar endurgjalds, byggðasjónarmiða, umhverfissjónarmiða eða annarra málefnalegra sjónarmiða við úthlutun þessara takmörkuðu gæða. Auðvitað þarf líka að  gæta að jafnræði, og val á milli hæfra umsækjenda skal vera opinbert og hlutlægt, en þessi áhersla á eflingu byggða er sérstaklega skrifuð inn í frumvarpið um Hálendisþjóðgarð,“ segir Guðmundur.  

Í ljósi þessa er Guðmundur spurður um það hvernig það verði tryggt að nærliggjandi sveitarfélög muni hagnast á Hálendisþjóðgarði. Þá bendir Guðmundur á að eitt af markmiðum þjóðgarðsins sé að ýta undir slíkt.  

„Það er líka gert með því að byggja upp þjónustu á vegum þjóðgarðsins sem eru næst þjóðgarðinum og eiga land að þjóðgarðinum. Þar með skapast tækifæri á afleiddri þjónustu og svo framvegis. Þetta snýst svolítið um það að ferðaþjónusta, hvort sem hún er uppi á hálendinu eða í byggðunum og niðri á láglendinu, geti boðið ferðamanninum upp á fleiri tækifæri til afþreyingar og fræðslu, tækifæri til þess að vera lengur á hverjum stað,“ segir Guðmundur og bætir við: 

„Það er ferðaþjónustunni til framdráttar að geta tafið ferðamanninn á ferð sinni um landið og haldið í hann svo hann kaupi gistingu, þjónustu o.s.frv. Þjóðgarðar og friðlýst svæði bjóða upp á fræðslu, kynningu og ákveðna þjónustu sem er svo mikilvæg til að geta náð að fá ferðamanninn til þess að stoppa lengur. Það er það sem skiptir gríðarlega miklu máli.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert