„Hvers lags þvættingur er þetta?“

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er beinlínis hörmulegt að hlusta hér á málflutning háttvirts þingmanns og formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það stendur upp úr honum, háttvirtum þingmanni hér, bunan um það að þetta snúist ekki um mannréttindi. Þetta snúist ekki um frelsi. Þetta séu merkimiðastjórnmál.“

Þetta sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, við umræður á Alþingi í dag um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði.

Um er að ræða frumvarp sem ætlað er að tryggja rétt­ barna sem fæðast með ódæmi­gerð kynein­kenni og verja þau gegn ónauðsyn­leg­um skurðaðgerðum, eins og sagði í til­kynn­ingu frá stjórn­ar­ráðinu í september.

Páll ávarpaði í ræðu sinni Sigmund Davíð, sem áður hafði sagt málið það versta sem ríkisstjórnin hefði lagt fram.

„Dæmigert merkimiðastjórnmál sem er eingöngu rætt út frá heiti og yfirlýstum markmiðum, en ekki innihaldi og afleiðingum,“ hafði Sigmundur sagt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Forneskjulegt og öfgafullt mál“

„Þess vegna höfum við heyrt hér hástemmd öfugmæli um mannréttindi og annað sem eru í raun þversagnir þegar þetta mál er skoðað. Þetta snýst ekki um að vernda intersex-fólk og þetta snýst ekki um trans-fólk. Þetta snýst um að svipta börn sjálfsögðum og lífsbætandi lækningum sem framkvæmdar hafa verið með góðum árangri jafnvel áratugum saman,“ sagði Sigmundur.

„Rökstuðningurinn er oft og tíðum farsakenndur og vísað jafnvel í alþjóðasáttmála gegn pyntingum til að réttlæta það að börn fái ekki heilbrigðisþjónustu. Það er með þessu verið að gefa til kynna að mörghundruð foreldrar og læknar hafi á undanförnum árum og áratugum brotið rétt á börnum sínum með því að veita þeim aðgerðir eða aðrar lækningar sem hafa verulega bætt lífsgæði þeirra fyrir lífstíð.“

Sagði hann það ótrúlegt, „að svona forneskjulegt og öfgafullt mál skuli keyrt hér í gegn á Alþingi árið 2020.

„Spurðu fólkið sem í hlut á“

Páll steig síðar í ræðustól og svaraði Sigmundi, eins og áður sagði:

„Spurðu fólkið sem í hlut á, háttvirtur þingmaður, hvort þetta séu mannréttindi, frelsismál eða merkimiðastjórnmál. Þvættingurinn um það að það sé verið að meina börnum um læknishjálp. Er það það sem Læknafélagið mælir einróma með að verði gert? Læknafélag Íslands, sem mælir með samþykkt þessa frumvarps?“ spurði Páll.

Sérfræðingahópurinn? Barnaskurðlæknarnir? Barnalæknarnir á Landspítalanum? Eru þeir að mæla með því að börnum verði meinað um læknisaðstoð?“ hélt hann áfram.

„Hvers lags þvættingur er þetta, háttvirtur þingmaður?“ spurði hann loks og steig úr ræðustól. Heyrðust þá þingmenn kalla um leið: „Heyr, heyr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert