Stokkar forgangsröðun ráðherra upp

Þórólfur Guðnason á fundi dagsins.
Þórólfur Guðnason á fundi dagsins. Ljósmynd/Almannavarnir

Forgangsröðun í bólusetningu við Covid-19 verður breytt, að sögn sóttvarnalæknis. Verður þetta gert vegna þess að færri skammtar af bóluefni berast til landsins í byrjun árs en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þá verður góðu hjarðónæmi ekki náð hérlendis fyrr en á seinni hluta næsta árs. 

Þannig verða 1.000 heilbrigðisstarfsmenn í framlínunni bólusettir með fyrstu skömmtunum og svo heimilisfólk dvalar- og hjúkrunarheimila og öldrunarheimila. Sá hópur telur 3 - 4.000 manns. Fyrsta sending af bóluefnum frá Pfizer/BioNTech mun telja skammta fyrir 5.000 manns. 

„Við áformum að hefja strax bólusetningu eftir jólin,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag, eftir að hann tilkynnti að færri skammtar af bóluefni þýddu að „stokka þyrfti upp í forgangsröðun bólusetningarinnar eins og hún var birt í reglugerð ráðuneytisins.

Fáum líklega ekkert frá öðrum fyrr en á seinni hluta ársins

Í janúar og febrúar verða svo elstu aldurshóparnir bólusettir en þá berast skammtar fyrir 8.000 einstaklinga til landsins. 

Áður var áætlað að heilbrigðisstarfsmenn yrðu í fyrstu tveimur forgangshópunum sem og þeim fjórða og fimmta. 

Áframhaldandi bólusetning og forgangsröðun ræðst af því hversu marga skammta við fáum og hversu hratt, sagði Þórólfur. Hann telur óljóst hvenær á árinu 2021 afhending bóluefna frá öðrum framleiðendum getur hafist en það verði í fyrsta lagi um mitt ár 2021 og sennilega ekki fyrr en á seinni hluta ársins. 

„Þetta þýðir það að við munum ekki ná góðu hjarðónæmi hér á landi fyrr en einhvern tímann á seinni hluta næsta árs,“ sagði Þórólfur. 

Hægt að aflétta þegar viðkvæmustu hafa verið bólusettir

Þá sagði hann erfitt að segja hvaða áhrif bólusetningin myndi hafa á takmarkanir.

„Við munum vafalaust þurfa að búa við áframhaldandi takmarkanir fram eftir næsta ári. Einnig þurfum við í grunninn að viðhalda einstaklingsbundnar sóttvarnir.“

Líklega verður þó eitthvað hægt að létta á þeim þegar búið er að bólusetja viðkvæmustu hópana. Það verður líklega um mitt næsta ár. 

„Þetta þýðir einnig að ekki verði hægt að slaka á þeim takmörkunum sem nú eru í gangi fyrr en við sjáum hvernig faraldurinn hegðar sér nú á næstu dögum og vikum,“ sagði Þórólfur sem benti þó á að tilslakanir væru alltaf í skoðun.

Núverandi reglur gilda fram yfir áramót.

„Þetta er ekki búið. Við vonuðumst til að sjá hraðari og fjölmennari bólusetningar nú strax eftir áramótin en við verðum bara að lifa við það að það mun ganga hægar en við ætluðumst til og við verðum að hegða okkur í samræmi við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert