„Breiða út fegurð íslensku sauðkindarinnar”

Þetta fallega lamb prýddi síðu desembermánaðar í lambadagatalinu 2020.
Þetta fallega lamb prýddi síðu desembermánaðar í lambadagatalinu 2020. Ljósmynd/Ragnar Þorsteinsson

Síðastliðin sjö ár hefur Ragnar Þorsteinsson, sauðfjárbóndi í Sýrnesi Aðaldal, gefið út lambadagatöl, við góðar undirtektir. Verður lambadagatalið því einnig gefið út fyrir árið 2021. 

„Lambadagatalið prýða stórar og fallegar andlitsmyndir af nýlega fæddum lömbum í sínu náttúrulega umhverfi. Myndirnar fanga fegurð þeirra, persónuleika og þá einstöku dásemd sem fólgin er í nýju lífi,“ segir í lýsingu lambadagatalsins 2021 á vefsíðu Karolina Fund. 

Ljósmynd/Ragnar Þorsteinsson

Það er þó bæði krefjandi og tímafrekt að taka myndir af lömbum. „Þau eru sjálfstæð og á sífelldri hreyfingu, fylgjast vel með því sem er í gangi í kringum sig og eru lítið fyrir að standa kyrr og pósa meðan myndavélinni er stillt upp. Eins og gefur að skilja er sauðburður í fullum gangi á þessum tíma og því oft ekki mikill tími aflögu til annara verka.“

Ljósmynd/Ragnar Þorsteinsson

Segir þá á vefsíðu verkefnisins að myndatakan sé skemmtileg og það sé endurnærandi að leggjast út á tún og taka myndir af lömbunum. Áður en myndirnar eru teknar þarf að vera búið að vinna sér inn traust og vináttu lambanna „svo þau verði ekki skelkuð og hlaupi eitthvað útí loftið.“

Meginmarkmiðið hjá Ragnari er að „breiða út fegurð íslensku sauðkindarinnar“ og bendir hann á, í samtali við mbl.is að, sauðkindin sé „náttúrulega uppruninn okkar sem hefur gert okkur að þessari mögnuðu þjóð sem við erum í dag.“

Hægt er að lesa sér frekar til um verkefnið á Karolina Fund.

Nóvembersíða dagatalsins 2020.
Nóvembersíða dagatalsins 2020. Ljósmynd/Ragnar Þorsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert