Fullvissaði Katrínu um bóluefni fyrir Ísland

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddust við í síma í dag, en þar fóru þær yfir dreifingu bóluefna til Íslands.

Í tísti sem von der Leyen setti á Twitter kemur fram að hún hafi fullvissað Katrínu um að fyrstu sendingar bóluefnis komi til Íslands fyrir áætlaða bólusetningardaga í Evrópu, að því gefnu að lyfjaeftirlit Evrópu samþykki bóluefni Pfizer í dag.

Gert er ráð fyrir að fyrstu dagar bólusetninga í löndum Evrópusambandsins verði 27., 28. og 29. desember.

Nokkur óvissa kom upp um fjölda bóluefnaskammta sem Ísland hefði tryggt sér aðgang að um helgina þegar Bloomberg birti tölur um að Ísland stæði þar öðrum Evrópulöndum langt á eftir og að aðeins væri tryggt bóluefni fyrir um 30% þjóðarinnar, eða fyrir 103 þúsund manns. Í frétt Rúv segir að forsætisráðuneytið hafi óskað eftir símtalinu við von der Leyen vegna þessara misvísandi upplýsinga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sendi Stjórnarráðið frá sér leiðréttingu á því í gær og sagði að búið væri að tryggja bóluefni fyrir 200 þúsund manns með bóluefni frá AstraZeneca og Pfizer og að gert væri ráð fyrir því að skrifa upp á samning við Jans­sen (John­son & John­son) um 235.000 skammta fyr­ir jól, en það myndi duga fyrir um 117 þúsund manns. Einnig er stefnt að því að undirrita samning vegna bóluefna frá Moderna.

Gert er ráð fyrir því að fyrstu fimm þúsund skammtar bóluefnisins komi í vikunni, en að frá 27. desember muni 3 þúsund skammtar koma að meðaltali á viku frá Pfizer út mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert