Tvö smit innanlands – níu virk smit á landamærunum

Sýnataka fer fram við Suðurlandsbraut.
Sýnataka fer fram við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær og var annar í sóttkví. Á landamærunum greindust níu virk smit í gær en einn var með mótefni. Fimm bíða niðurstöðu mótefnamælingar.

Í gær var greint frá því að 17 smit hefðu greinst daginn áður á landamærunum. Nú er komið í ljós eftir að niðurstaða mótefnamælingar liggur fyrir hjá flestum að fjórir hafi greinst með Covid-19-smit í fyrri skimun en þrír þeirri seinni. Aftur á móti hafi fimm verið með mótefni og fjórir bíða enn niðurstöðu mótefnamælingar. 

Nú eru 149 í einangrun og hefur þeim fjölgað um sex á milli daga. Aftur á móti hefur fækkað á sjúkrahúsi þar sem þeir eru nú 19 en voru 20 í gær. Enginn þeirra var með virkt Covid-19-smit. Í sóttkví innanlands eru 320 og 2.018 í skimunarsóttkví. 

Tæplega 1.100 sýni voru tekin innanlands í gær en tæplega 900 á landamærunum. 

Nýgengi smita á landamærunum miðað við 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga er nú 23,2 en innanlands 18,8.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 109 í einangrun og 134 í sóttkví en á Suðurnesjum eru 14 smit og 37 í sóttkví. Enn eru margir í sóttkví á Suðurlandi og flestir í Hveragerði og Ölfusi. Samkvæmt covid.is eru smitin 13 talsins en 118 í sóttkví en samkvæmt vef Heilbrigðisstofnun Suðurlands er 21 smit í landshlutanum og 123 í sóttkví. Í tölum Hsu eru einstaklingar sem eru með lögheimili á svæðinu hvort sem þeir taka út einangrun heima eða á öðrum dvalarstað. Eins einstaklingar sem eru í einangrun/sóttkví, t.d. í sumarhúsi á Suðurlandi. 

14 börn yngri en 18 ára eru með Covid-19-smit og 45 einstaklingar á aldrinum 18-29 ára. 37 smit eru meðal fólks á aldrinum 30-39 ára og 25 hjá fólki á aldrinum 40-49 ára. Á sextugsaldri eru 16 með Covid í dag og sjö á sjötugs- og fimm á áttræðisaldri. 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert