Gekk blóðugur fram hjá stofunni

Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nemandi í Borgarholtsskóla sem var staddur í skólanum þegar árás var framin þar skömmu eftir hádegi í dag segir að nemendur hafi margir verið mjög skelkaðir. Sex voru fluttir á slysadeild vegna árásarinnar. 

„Við vorum bara inni í stofu í hádegismat og þá sáum við strák sem labbaði fram hjá stofunni okkar fram og til baka og hann var blóðugur. Ég frétti að það hefði verið eftir að ljósaperu var kastað í hausinn á honum. Stuttu seinna fylltist allt af lögreglumönnum,“ segir Ebba Magnúsdóttir, nemandi í Borgarholtsskóla. 

Gert að fara heim

Nemendur hafa heyrt af því að sá sem mætti í skólann með hafnaboltakylfu sé ekki nemandi í Borgarholtsskóla. Hann hafi einnig verið með hníf sem hann hafi beitt gegn að minnsta kosti þremur öðrum nemendum. Þetta hefur ekki fengist staðfest hjá lögreglu.

„Nemendum var gert að sitja inni í stofum og var verið að rýma alla ganga. Okkur var svo hleypt út í hollum og gert að fara heim þar sem allir tímar falla niður eftir hádegi. Þá voru lögreglur með skjöld og sérsveitin var þarna og mikið af lögreglum, sjúkrabílum og slökkviliðsbílum,“ segir Ebba. 

„Ég var mjög hrædd, líka vegna þess að hann gekk alveg laus, þeir náðu honum ekki strax.“

Spurð hvort hinir krakkarnir í stofunni hafi líka verið hræddir segir Ebba:

„Það voru náttúrlega allir mjög forvitnir um það sem var að gerast en svo voru líka allir mjög hræddir, sendu vinum sínum skilaboð og spurðu hvort það væri allt í lagi.“

mbl.is