Alþingi komi saman til að breyta sóttvarnalögum

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir því við þingmenn og forseta Alþingis að þing komi saman á morgun, föstudaginn 15. janúar, í því skyni að gera breytingar á sóttvarnalögum svo hægt sé að fara eftir tillögum sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar. Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum ríkir óvissa um hvort lagaheimild sé fyrir því í núgildandi sóttvarnalögum að hægt sé að skylda einstaklinga í sýnatöku.

„Smit á landamærum hafa verið umtalsvert fleiri en innanlands undanfarið og því til mikils að vinna að halda smitum í lágmarki og minnka hættuna eins og hægt er á því að hættulegri afbrigði veirunnar nái til landsins,“ segir í tilkynningunni.

Tillögu Helgu Völu hafnað

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, lagði það til í nefndinni að hratt og örugglega yrði unnið að lagabreytingum til að hægt væri að fara eftir tillögum sóttvarnalæknis um tvöfalda skimun á landamærum án réttar til valkvæðrar sóttkvíar. Tillögunni var hafnað á fundi nefndarinnar í dag og mun þingflokkur Samfylkingarinnar nú ráðast í gerð frumvarp um slíkar lagabreytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert