Hulda nýr sviðsstjóri hjá LHÍ

Hulda Stefánsdóttir, nýr sviðsforseti akademískrar þróunar við LHÍ.
Hulda Stefánsdóttir, nýr sviðsforseti akademískrar þróunar við LHÍ. Ljósmynd/LHÍ

Hulda Stefánsdóttir hefur verið ráðin í starf sviðsforseta akademískrar þróunar við Listaháskóla Íslands.

Hulda er með MFA-gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York og lauk myndlistarnámi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Í tilkynningu LHÍ um ráðningu Huldu segir um störf hennar: 

„Hulda er leiðandi listamaður á sínum fagvettvangi og er virk á alþjóðavettvangi. Hún á að baki fjölda einka- og samsýninga hérlendis og erlendis og er einn af listamönnum BERG Contemporary. Verk eftir hana eru í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands.“

Á heimsíðu Listaháskólans segir að sviðsforseti akademískrar þróunar sé leiðandi í þróun á kennslu, rannsóknum og akademískum vinnubrögum Listaháskólans. Þá leiði hann uppbyggingu og þróun meistaranámsbrauta, vinnur að þverfaglegum markmiðum og innleiðingu á stefnu Listaháskólans í samráði við aðra stjórnendur. Viðkomandi er leiðandi í undirbúningi að stofnun doktorsnáms.

mbl.is