Fatlað fólk verður oftar fyrir ofbeldi

Fatlað fólk er oftar fórnarlamb ofbeldis en ófatlaðir.
Fatlað fólk er oftar fórnarlamb ofbeldis en ófatlaðir. AFP

Ætla má að fjöldi fatlaðs fólks verði fyrir ofbeldi hér á landi, í einhverjum tilvikum ítrekað og reglulega. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra Ofbeldi gegn fötluðu fólki á Íslandi. 

Í skýrslunni er bent á að við skráningu í kerfi lögreglu er ekki boðið upp á að skrá hvort að brotaþoli sé fatlaður. Slíkt telst til heilsufarsupplýsinga og þarf heimild fyrir skráningu á þeim. Þannig að ekki er hægt að draga saman fjölda mála er beinast að fötluðum einstaklingum. 

Einnig eru leiddar að því líkur að aðeins lítill hluti ofbeldismála gegn þessum viðkvæma hópi fólks rati inn í réttarvörslukerfið. 

Ofbeldi gegn fötluðum körlum óþekkt

Í skýrslunni segir að rannsóknir síðustu ára á Íslandi hafi einkum beinst að stöðu fatlaðra kvenna. Lítið sem ekkert er þekkt um ofbeldi sem beinist gegn fötluðum karlmönnum. Fáar rannsóknir hafa beinst sérstaklega að börnum með fötlun.

Þær rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar hafa leitt í ljós að algengt sé fatlaðar konur sem verða fyrir ofbeldi tilkynni það ekki og séu hræddar um að þeim verði ekki trúað.

Börn með þorskahömlun útsett

Farið er yfir sambærilegar erlendar rannsóknir í skýrslunni þar sem niðurstöður sýna að fötluð börn séu fjórum sinnum líklegri en önnur til að verða fyrir ofbeldi, sérstaklega þegar um þroskahömlum er að ræða. 

„Í nýlegri rannsókn sem framkvæmd var í Noregi kom í ljós að aðeins tíunda hverju ofbeldis- og kynferðisbrotamáli lýkur með skilorðslausum dómi þegar brotaþoli er fatlaður. Það hlutfall er mun lægra en þegar ófatlaðir verða fyrir slíkum árásum,“ segir í tilkynninu frá ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert