Kannaðist ekkert við konuna

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Kona reyndi að ná lyfjum úr apóteki í Kópavoginum (hverfi 201) en hún sagðist vera að sækja lyf fyrir mann sem kannaðist ekkert við konuna að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Konan er einnig grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna auk fleiri brota. Hún er vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan fékk tilkynningu um að bifreið hefði verið ekið á vegrið í Austurbænum (hverfi 105) á tólfta tímanum í gærkvöldi en áður hafði ökumaðurinn ekið á móti rauðu ljósi og gegn einstefnu. Hann sinnti ekki merkjagjöf lögreglu þegar átti að stöðva akstur hans.  Ökumaðurinn  er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og hafði ekki gild ökuréttindi. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan hafði afskipti af ungum manni í annarlegu ástandi í Austurbænum (hverfi 108) í nótt. Maðurinn hafði sparkað upp hurð á fjölbýlishúsi og skemmt hurðina en hann var með ranghugmyndir og sagði einhvern hafa verið að elta sig. Maðurinn fékk að fara heim að lokinni upplýsingatöku.

Ökumaður, sem lögregla stöðvaði í Breiðholti (hverfi 109) í nótt, er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda. Hann er einnig grunaður um skjalafals þar sem hann framvísaði ökuskírteini sem er talið falsað.

Síðdegis í gær var ekið á 13 ára gamla stúlku sem var nýkomin úr strætisvagni í Árbænum. Stúlkan kenndi eymsla í fæti og var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans. 

Tveir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir akstur sviptur ökuréttindum.

mbl.is