Andlát: Ingimar Erlendur Sigurðsson

Ingimar Erlendur Sigurðsson rithöfundur er látinn, 87 ára að aldri.

Ingimar Erlendur fæddist á Akureyri 11. desember 1933, sonur hjónanna Sigurðar Ingimars Helgasonar myndlistarmanns og Friðbjargar Jónsdóttur húsmóður. Hann flutti með fjölskyldunni til Reykjavíkur er hann var fimm ára. Hann var í Miðbæjarskólanum, Austurbæjarskólanum, lauk landsprófi frá Ingimarsskóla og prófum frá Kennaraskóla Íslands 1957.

Ingimar Erlendur var blaðamaður við Morgunblaðið 1959-62, var ritstjóri og ábyrgðarmaður Frjálsrar þjóðar 1962-63 en helgaði sig síðan ritstörfum.

Fyrsta bók Ingimars Erlendar var ljóðabókin Sunnanhólmar, sem kom út 1959. Tveimur árum síðar kom út smásagnasafnið Hveitibrauðsdagar og árið 1965 kom út skáldsaga hans Borgarlíf sem vakti talsverða athygli. Á næstu áratugum sendi Ingimar Erlendur frá sér fjölda bóka, einkum ljóðabækur, sú síðasta var Ljóðdómur – einskonar ævisaga, sem kom út 2013, 900 blaðsíðna bók í tveimur bindum, myndskreytt með 84 ljóðmyndum eftir höfundinn. Ingimar Erlendur fékk viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 1973.

Ingimar Erlendur sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 2008, að hann hefði byrjað að yrkja sex ára gamall.

„Ég er ekki í landsliði ljóðsins. Ég er einliði ljóðsins. Ég yrki ekki ljóðin, þau yrkja mig. Gallinn við nútímaljóð finnst mér oft vera sá að skáldin yrkja ljóð í staðinn fyrir að láta ljóðin yrkja sig,“ sagði hann.

Fyrri kona Ingimars var Ragnheiður Jónsdóttir, fyrrv. kennari í Reykjavík. Þau skildu. Börn þeirra eru Huld, Friðbjörg Helga og Þóra.

Seinni kona Ingimars var Margrét S. Blöndal geðhjúkrunarfræðingur. Hún lést 2006. Börn þeirra eru Sigríður Freyja og Sigurður Vífill.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert