Kofinn enn ófeðraður

Varst þú á ferð um Suðurstrandarveg á mánudag og saknar …
Varst þú á ferð um Suðurstrandarveg á mánudag og saknar garðkofa? Facebook-síða lögreglunnar á Suðurlandi

Enginn hefur gefið sig fram við Lögregluna á Suðurlandi, sem enn leitar eiganda garðkofa sem þurfti að fjarlægja af miðjum Suðurstrandarvegi á mánudagskvöld. Lýst var eftir eigandanum í kjölfarið en enginn hefur sett sig í samband við embættið.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn segir í sjálfu sér skiljanlegt að enginn gefi sig fram vegna kofans, sem augljóslega er handónýtur eftir að hafa væntanlega dottið af kerru eða palli á fleygiferð. „Ef þetta er ónýtt eru menn kannski ekki að gangast við króganum.“

Hitt er spurning hvernig það megi vera að það hafi farið fram hjá ökumanni þegar kofinn fauk af bílnum.

Fundur af þessum toga er að sögn Sveins Kristjáns síður en svo daglegt brauð þó að sannarlega reki ýmis forvitnileg mál á fjörur lögreglunnar að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert