Hugmyndir um að koma á millilandaflugi um Hornafjarðarflugvöll myndu kalla á miklar framkvæmdir og kostnað. Þetta kemur fram í umsögn Isavia um þingsályktunartillögu þess efnis sem lögð hefur verið fram á Alþingi.
„Hornafjarðarflugvöllur er ekki búinn nauðsynlegum búnaði í flugvernd til að taka á móti millilandaflugfarþegum og ljóst að ráðast þyrfti í breytingar á flugstöð til að koma fyrir búnaði bæði vegna flugverndar og tollskoðunar. Að auki væri nauðsynlegt að fjölga starfsmönnum í daglegum rekstri á flugvellinum,“ segir í umsögninni.
Rakið er að Hornafjarðarflugvöllur hafi eina flugbraut sem sé 1.500 metra löng og 30 metra breið. Slitlag flugbrautarinnar beri ekki stærri flugvélar og breidd hennar gæti verið takmarkandi þáttur.
„Því gæti þurft að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á flugbraut ef horfa á til mikillar aukningar í umsvifi og breytingar á tegundum flugvéla sem nota völlinn,“ segir í umsögninni.
Jafnframt er bent á að innanlandsflugvellir séu „undirfjármagnaðir fyrir þau verkefni sem þeir sinna í núverandi kerfi og að uppsöfnuð framkvæmdaþörf er nokkrir milljarðar miðað við óbreytt þjónustustig. Því myndi aukin þjónusta og breytt flugumferð kalla á auknar fjárveitingar, bæði fyrir framkvæmdir og þjónustu.“