„Aðgát skal höfð í málefnum barna“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, vakti athygli á stöðu drengja innan skólakerfisins á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Guðmundur minntist á ummæli sem látin voru falla í Silfrinu 7. febrúar, þar sem fram kom að rannsóknir sýni að drengir séu „miklu duglegri í að aumingjavæða sjálfa sig en stúlkur í skólakerfinu“. 

„Þessi ummæli tel ég varhugaverð og ekki til þess fallin að hjálpa dengjum sem standa halloka í skólakerfinu okkar. Hver hefðu viðbrögðin verið í samfélagi okkar ef miðaldra karlmaður hefði sagt þetta um stúlkur,“ sagði Guðmundur. 

Guðmundur vísaði í umfjöllun Morgunblaðsins þar sem fram kemur í viðtali við Þorgrím Þráinsson að starfshópur hafi verið skipaður um námsárangur drengja og hafi hann skilað tíu tillögum til úrbóta. „Það eina sem gerðist var að sérstakur starfshópur um líðan stúlkna var skipaður,“ sagði Guðmundur, sem síðan spurði Lilju Alfreðsdóttur hvort að einhver vinna væri nú í gangi til að stemma stigu við slæmri stöðu drengja innan menntakerfisins. Þá spurði hann einnig hvort að verið væri að ráðstafa fjármagni í slíka vinnu. 

Lilja þakkaði Guðmundi fyrir að vekja athygli á málefninu og fór yfir þá vinnu sem nú er í gangi. 

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í fyrsta lagi höfum við samþykkt eitt leyfisbréf þvert á öll skólastigin til að efla stöðu kennara og það eru kennararnir sem kenna börnunum. Búið var að reyna að fara í þessar breytingar í heil tíu ár en það tókst núna fyrir tveimur árum. Í öðru lagi erum við búin að fjölga kennaranemum um 40% og erum með sérstaka áherslu á unga drengi í rannsóknum. Það var samþykkt núna fyrir nokkrum mánuðum,“ sagði Lilja.

„Í þriðja lagi langar mig til að nefna nokkur verkefni sem miða sérstaklega að þessu. Eitt er í Vestmannaeyjum, sem við erum að vinna með Hermundi Sigmundssyni prófessor, þar sem við erum að fjalla um stöðu drengja og breyta menntakerfinu og gefa okkur það að við ætlum að leggja meiri áherslu á hreyfingu og grunnlestrarfærni. Í fjórða lagi vil ég nefna skólaþróunarteymi sem eiga að fjalla sérstaklega um þetta og við höfum þegar sett þau á laggirnar. Í fimmta lagi höfum við mótað stefnu um börn af erlendum uppruna og að sjálfsögðu eru drengir þar líka,“ sagði Lilja. 

Rúmlega 30% drengja lesi sér ekki til gagns 

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn sinni sömuleiðis til Lilju. 

Þorsteinn vísaði til viðtals við Lilju á miðvikudagskvöld þar sem fram kom að menntakerfið henti ekki drengjum og að rúmlega 30% drengja lesi sér ekki til gagns eftir grunnskólaútskrift. 

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Hari

„Það var á ráðherra að heyra að menntastefnan sem hún hefur lagt fram væri lykillinn að því að bæta þetta ástand. En í menntastefnunni er ekki minnst á að menntakerfið henti ekki drengjum. Það er ekki minnst á sérstakan vanda varðandi læsi drengja. Ég vil því spyrja ráðherra hvort hún hyggist breyta stefnunni í meðförum þingsins þannig að þessi atriði komist á dagskrá þar,“ spurði Þorsteinn. 

Lilja sagði þá að menntastefnan hefði það hlutverk að tryggja öllum framúrskarandi menntun alla ævi. Eigi það jafnt við um drengi sem stúlkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert