Hvað með börnin?

Hérlendis hefur ekkert verið fjallað alvarlega um bólusetningu barna gegn …
Hérlendis hefur ekkert verið fjallað alvarlega um bólusetningu barna gegn Covid-19. AFP

Bólusetning barna sem fædd eru árið 2006 og síðar hefur ekki komið alvarlega til skoðunar hérlendis, að sögn sóttvarnalæknis. Hann telur ekki endilega nauðsynlegt að börn séu bólusett til þess að hjarðónæmi fyrir Covid-19 náist hér á landi. 

Rannsóknum á bólusetningu barna gegn Covid-19 er ekki lokið. Rannsóknum Pfizer og Moderna á bólusetningu barna, 12 ára og eldri, standa nú yfir og er niðurstaðna að vænta fyrir sumarið. Þá hófst rannsókn á bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla á börnum á aldrinum 6 til 17 ára fyrr í febrúarmánuði. 

Sem stendur gerir reglugerð heilbrigðisráðherra ráð fyrir því að börnum sem fædd eru árið 2006 og síðar verði ekki boðin bólusetning nema þau séu með undirliggjandi langvinna sjúkdóma og í sérstakri áhættu vegna Covid-19. 

„Það hefur ekkert verið fjallað um það alvarlega hvort það sé þörf á því [að bólusetja börn]. Rannsóknir á börnum standa nú yfir og á eftir að koma í ljós hverju það skilar,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Þórólfur Guðnason telur að ef ný afbrigði veirunnar komi fram …
Þórólfur Guðnason telur að ef ný afbrigði veirunnar komi fram sem hafi verri áhrif á börn gæti þörfin á bólusetningu barna aukist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki eins knýjandi að bólusetja börn

Þórólfur bendir á að börn veikist ekki jafn illa og fullorðnir af Covid-19 og smiti ekki jafn mikið.

„Þannig að það er ekki eins knýjandi að bólusetja þau eins og eldra fólk. Ég sé ekki alveg fyrir mér að það muni gerast en það kannski breytist.“

Þórólfur telur þó að ef ný afbrigði veirunnar komi fram sem hafi verri áhrif á börn gæti þörfin á bólusetningu barna aukist. „En það er eins og margt annað sem verður bara að koma í ljós.“

Þótt börn fái ekki bólusetningu gegn Covid-19 eins og leikar standa eru starfsmenn í leik-, grunn- og framhaldsskólum í áttunda forgangshópi í bólusetningu. Því er útlit fyrir að fólkið sem vinnur hvað mest með börnum fái bólusetningu fyrr en almennir borgarar utan forgangshópa. 

Í Bandaríkjunum er útlit fyrir að bólusetning barna gegn Covid-19 hefjist í lok sumars. 

Setur ekki stein í götu óbólusettra barna

Spurður hvort það geti ekki orðið til vandræða fyrir foreldra, hvað ferðalög varðar, að börn þeirra séu ekki bólusett segir Þórólfur:

„Engar þjóðir taka gild vottorð um bólusetningu á landamærum nema Íslendingar. Það er auðvitað verið að ræða það og það eru fleiri sem hafa lýst því yfir að þeir ætli að taka gild vottorð á landamærum. En það er ekki komið til framkvæmda, eftir því sem ég best veit,“ segir Þórólfur. 

Aðspurður segir Þórólfur að hann myndi ekki leggja það til að óbólusettum börnum væri óheimilt að koma hingað til lands. 

mbl.is