Heilbrigðisráðuneytið svarar læknum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt svör sín við spurningum þriggja lækna sem þeir birtu í grein í Morgunblaðinu í gær. Spurningum sínum beindu þeir til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og sneru allar að kaupum hins opinbera á þjónustu frá dönsku sjúkrahúsi við rannsóknir á leghálssýnum sem tekin eru hér á landi.

Læknarnir eru þeir Anna Margrét Jónsdóttir, Ísleifur Ólafsson og Þorbjörn Jónsson. Á vef Stjórnarráðsins eru allar sjö spurningar læknanna birtar og þeim svarað. Þá er þess getið að spurningunum hafi þegar verið svarað á öðrum vettvangi, bæði af hálfu heilbrigðisráðherra og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hvaða aðili eða stofnun ákvað að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum skyldu gerðar erlendis og hvenær var þetta ákveðið?

Í svari við því segir, með vísan í pistil sem birtist á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 24. febrúar, að heilsugæslan hefði kosið að rannsóknir á sýnum úr leghálsskimun færu fram hér á landi. Möguleiki þess hafi verið kannaður með erindi heilsugæslu til yfirlæknis á meinafræðideild Landspítalans 22. júlí. Þar var óskað eftir áætlun um verð fyrir rannsókn frumusýna á deildinni.

Í svari spítalans, 12. ágúst 2020, segir að meinafræðideild LSH hafi aldrei haft til rannsóknar eða greininga frumusýni í leghálsi í tengslum við krabbameinsskimanir. Því sé ekki til staðar raunhæf gjaldskrá.

Einnig sé starfsemin nokkuð frábrugðin starfi á meinafræðideildinni og því þarfnaðist hún sérhæfðs starfsfólks og mjög sérhæfðs tækjabúnaðar auk viðeingandi húsnæðis. Mjög lítið af þessu sé til staðar á meinafræðideildinni og því var ekki talin ástæða til þess að LSH óskaði eftir því að sinna rannsóknarstarfsemi. Því yrði ekki farið í kostnaðargreiningu varðandi slíkt.

Í kjölfar þessa áttu svo fulltrúar HH fund með fulltrúum LSH þar sem þetta svar spítalans var staðfest.

Hvaða aðili ákvað að semja við rannsóknarstofu í Hvidovre í Danmörku? Var leitað eftir tilboðum frá öðrum aðilum?

Í svari heilbrigðisráðuneytis segir að HH hafi gengið til samninga við rannsóknarstofu sjúkrahússins í Hvidover að undangengnu samráði við Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherra veitti HH umboð til að ganga til samninga við Hvidovre til þriggja ári.

Óskað hafi verið eftir upplýsingum um verð greininga á hefðbundnum frumusýnum annars vegar og HPV-mælinga hins vegar frá LSH, Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og Hvidovre í Kaupmannahöfn.

Við kostnaðargreiningu þess, sem gerð var þrátt fyrir fyrrgreint svar yfirlæknis meinafræðideildar LSH, kom fram að einingaverð fyrir greiningu hefðbundinna frumusýna á Landspítalanum var allt að tvöfalt hærri en á hinum sjúkrahúsunum að stofnkostnaði frátöldum.

Hvað kostar langtímasamningur við dönsku rannsóknarstofuna? Hefur sá samningur verið undirritaður, ef svo er, hvenær var það gert?

Svar ráðuneytisins er á þá leið að samningar við Hvidovre geri ráð fyrir að rannsókn hvers sýnis sé um 3.200 íslenskar krónur. Heildarkostnaður miðist svo út frá þátttöku kvenna og þar með fjölda sýna.

Hver hefur aðkoma Sjúkratrygginga verið að samningagerðinni við dönsku rannsóknarstofuna? Hvílir ef til vill útboðsskylda á svona stórum samningi um læknisþjónustu við erlendan aðila?

Heilbrigðisráðherra fól HH skimunarverkefnið og þar með að gera samning um rannsóknir á sýnum en leitað var aðstoðar SÍ við samningsgerðina, segir í svari ráðuneytisins. Verkefnið hafi ekki verið talið útboðsskylt.

Telur heilbrigðisráðherra að gæðum og öryggi lækningarannsókna á Landspítalanum sé ábótavant? 

Svar ráðuneytisins við þessu er neitandi en að eins og komið hafi fram áður taldi meinafræðideild LSH ekki ástæðu til þess að sinna rannsóknum hefðbundinna frumusýna. Það hafi verið rökstutt í áðurnefndu bréfi til HH þann 12. ágúst í fyrra.

Má búast við því að yfirvöld hafi forgöngu um það að fleiri lækningarannsóknir verði færðar frá Íslandi til útlanda í framtíðinni? 

Ráðuneytið segir að ákjósanlegast sé að lækningarannsóknir fari fram hér á landi að því gefnu að faglegar og fjárhagslegar forsendur liggi fyrir. Tekið er fram að ýmis heilbrigðisþjónusta hér á landi sé veitt erlendis í gegnum samninga. Dæmi eru um að samningar séu gerðir við aðila í Þýskalandi og á Norðurlöndunum.

Hvert verður aðgengi íslenskra lækna að leghálssýnum þegar og ef klínísk þörf verður á frekari rannsóknum?

Ráðuneytið segir að sýni sem rannsökuð eru á Hvidovre-sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn fyrir HH séu eign heilsugæslunnar. Kveðið sé á um geymslu þeirra, aðgang og endurskoðun þegar þess er þörf í samningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert