„Eins og að horfa á málningu þorna“

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vakthafendur í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð eru í biðstöðu að sögn Rögnvalds Ólafssonar yfirlögregluþjóns. Þó að líklegast sé að fyrirhugað gos verði lítið og skapi ekki hættu fyrir byggð og innviði geti það þó auðvitað breyst, segir hann. 

„Við erum í raun og veru bara í biðstöðu. Þetta er svipað og þegar gaus í Holuhrauni hérna um árið, þá vorum við í þessari sömu stöðu í einhverjar tvær vikur minnir mig,“ segir Rögnvaldur og virðist pollrólegur. 

En eruð þið á óvissustigi eða hættustigi, eða hvað?

„Við erum á hættustigi. Það er af því að það er eitthvað í gangi og einhver atburðarás hafin,“ segir Rögnvaldur. Hann segir líklegt að hækkað verði í neyðarstig um leið og byrji að gjósa en síðan verði trappað niður eftir því sem meira kemur í ljós um aðstæður og eiginleika gossins. Það er það sem gert var í Holuhrauni.

Eldgos í Holuhrauni 2014.
Eldgos í Holuhrauni 2014. mbl.is/Rax

„Það má í raun segja að þessar aðstæður séu mjög svipaðar þeim og voru í Holuhrauni.“

Rögnvaldur segir aðspurður að afar ólíklegt sé að komi til neinnar rýmingar á Reykjanesskaganum ef fer að gjósa. Hann segir þó að aðstæður á Reykjanesskaga hafi kallað á að fjölmiðlafólki á svæðinu yrði vísað frá. Mikið votviðri hefur verið á svæðinu undanfarna daga og því er hætta á að fólk festi sig á torfærum slóðum ef það fjölmennir á svæðið.

„Eins og að horfa á málningu þorna“

„Það var einhver að grínast með það áðan að þetta væri eins og að horfa á málningu þorna,“ segir Rögnvaldur en bætir þó við að hamagangur sé mikill í Skógarhlíðinni. Fjölmiðlum er ekki hleypt inn í samhæfingarmiðstöðina og ræddi Rögnvaldur við blaðamann frammi í anddyri. Í sömu andrá var verið að bera inn stæður af pizzakössum og greinilegt er að langt kvöld er fram undan. 

„Við erum í rauninni bara að búa til plön og eiga varaplön. Það er eiginlega bara þannig vinna sem er í gangi hér núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina