Níu konur kæra íslenska ríkið til MDE

„Okkur finnst það vera algjörlega svart á hvítu að það …
„Okkur finnst það vera algjörlega svart á hvítu að það eru stórkostleg vandamál sem þarf að laga,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu konur hafa lagt fram kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) á hendur íslenska ríkinu. Konurnar höfðu allar áður kært kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður eftir rannsókn lögreglu og var sú ákvörðun staðfest af ríkissaksóknara. 70 til 85% mála af þessum toga eru felld niður áður en þau komast inn í dómssal. 

Þetta segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, í samtali við mbl.is. Hún segir að þar sem Stígamót líti á þetta sem kerfisbundið misrétti hafi samtökin ákveðið að auglýsa eftir málum af þessum toga, í samtarfi við lögmannsstofuna Rétt, sem höfðu verið felld niður. 

„Á annan tug kvenna voru tilbúnar að taka þátt en við völdum bara sterkustu málin,“ segir Steinunn. 

„Það eru náttúrulega strangar kröfur á þessum málum, þau þurfa að hafa tæmt öll úrræði innanlands og það mega ekki vera liðnir fleiri en sex mánuðir frá því að síðasta niðurfelling fékkst, þannig að við erum bara með allt glæný mál, við þurfum ekki að leita eitthvað aftur í tímann þannig að það er nóg úrval af málum sem lenda í þessari meðferð.“

Ákæruvaldið hafi tekið sér dómaravald

Málin níu hafa verið send til MDE og segir Steinunn að þegar þau hafi verið skoðuð ofan í kjölinn hafi brotalamir komið í ljós.

„Og ýmislegt sem okkur fannst gefa til kynna að þau hefðu alls ekki átt að vera felld niður heldur hefðu þau einmitt átt að fara í dómssal og fá áheyrn dómstóla og láta dómara skera úr um sekt og sakleysi,“ segir Steinunn sem telur að ákæruvaldið hafi í raun tekið sér dómaravald í málunum níu. Eitt þeirra fyrntist í meðförum lögreglu. 

„Það á náttúrulega alls ekki að gerast. Síðan eru önnur mál þar sem lögregla kallaði inn sakborninga og vitni með margra mánaða millibili svo það var vel hægt að samræma framburð. Í öllum málunum var málshraðinn allt of hægur, þau tóku allt of langan tíma í rannsókn og það kom niður á gæðum rannsóknanna,“ segir Steinunn.

Vilja sýna fram á kerfisbundið misrétti

Um er að ræða níu stakar kærur, ekki hópmálsókn, enda tekur MDE ekki við slíkum málsóknum.

„En það er ástæða fyrir því að við erum að senda níu mál: Við erum að sýna fram á kerfisbundið misrétti þannig að við sendum eitt mál og svo sendum við næsta og þá vísum við í fyrra málið. Þannig að við erum alltaf að vísa í sömu greinar Mannréttindasáttmála Evrópu, við erum að reyna að gera dómstólnum grein fyrir því að þetta sé ekki bara eitthvert eitt mál sem klúðrast heldur er þetta gegnumgangandi mynstur,“ segir Steinunn. 

„Stórkostleg vandamál sem þarf að laga“

Spurð hvort um sé að ræða sigurstrangleg mál segir Steinunn að einhver málanna séu komin í gegnum fyrsta nálaraugað en Stígamót geri sér hóflegar væntingar um að þau komist alla leið. 

„Ferlið hjá Mannréttindadómstólnum tekur að meðaltali í kringum fimm ár, þannig að við erum ekki að fara að sjá neinar niðurstöður á næstunni í þessum málum. Þess vegna fannst okkur svo mikilvægt núna, þegar við erum búin að fara ofan í allar kærurnar, að vekja athygli á því hvaða brotalamir við sáum vegna þess að við getum ekki beðið árum saman með að gera fólki grein fyrir því,“ segir Steinunn og bætir við að lokum:

„Okkur finnst það vera algjörlega svart á hvítu að það eru stórkostleg vandamál sem þarf að laga.“

Fjölmiðlafundur verður haldinn vegna þessa í Þjóðleikhúsinu í dag klukkan 10:15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert