Egg og beikon í morgunmat

Breiðafjarðarferjan Baldur lónar enn vélarvana úti fyrir Stykkishólmi tæpum sólarhring eftir að hún lagði af stað frá Brjánslæk í gær. Vonast er til þess að hægt verði að draga ferjuna að bryggju í Stykkishólmi eftir að veðri slotar upp úr hádegi í dag.

„Þetta hefur gengið hægt. Við erum að biðja um betra veður, sem er byrjað að ganga niður og vindurinn er hægari en í nótt,“ segir Einar Valsson, skipherra á varðskipinu Þór, í samtali við mbl.is.

Tveir menn úr áhöfn Þórs eru komnir yfir í Baldur til að aðstoða áhöfnina, eins og sést á myndskeiðinu hér að ofan.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson dró Baldur í átt að Stykkishólmi í …
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson dró Baldur í átt að Stykkishólmi í gær. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þór á að draga Baldur nær höfninni og þaðan á dráttarbáturinn Fönix að taka við honum og koma honum að bryggju. Til þess þarf lygnari sjó enda þröngt inn í höfnina og aðstæður allar nokkuð óhagstæðar.

Farþegarnir fengu egg og beikon í morgunmat og eru misvel upplagðir eftir sólarhringsdvöl í ferjunni. Ljósavélar virka þó vel og hiti og rafmagn eru um borð.

„Við erum í því liði“

Talið er að sama túrbínan hafi valdið biluninni í Baldri og olli henni síðasta sumar. Að Baldur sé bilaður leggst á eitt með ófærð á Klettshálsi og flugsamgönguleysi á Bíldudal og veldur því að allar leiðir eru lokaðar til sunnanverðra Vestfjarða.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða sem annast rekstur ferjunnar á grundvelli þjónustusamnings við Vegagerðina, segir eðlilegt að umræðan um samgöngur vakni þegar bilun kemur ítrekað upp í ferjunni.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða.
Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á endanum snýst þetta allt um fjármagn. Þetta snýr þannig ekki að rekstraraðilum heldur að ríkinu, en þetta gæti þá verið spurning um til dæmis þrjá milljarða í staðinn fyrir 100 milljónir,“ segir Gunnlaugur og bendir á að nýr Herjólfur hafi kostað rúma þrjá milljarða.

Gagnrýnt hefur verið að á Breiðafirði sigli fjörutíu ára gömul ferja með aðeins eina 25 ára gamla vél. „Jú, tvær vélar eru tvöfalt fleiri en ein, en það er ekki mikið úrval af skipum. Það verða alls konar hugmyndir til en því miður eru flestar þeirra andvana fæddar,“ segir Gunnlaugur.

„Þetta sýnir bara enn og aftur mikilvægi þess að viðhalda öflugum ferjusamgöngum,“ segir Gunnlaugur. „Vegirnir þarna eru erfiðir og það sem atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum segir, við tökum því ekkert sem einhverju gegn okkur. Það segir nýrra skip og meiri pening — við erum í því liði líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka