40 þúsund skjálftar á 17 dögum

Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, …
Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, sem gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn skjálfti yfir þremur að stærð hefur mælst við Fagradalsfjall frá því fyrir klukkan 9 í morgun en að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, þýðir það ekkert að hrinunni sé lokið því skjálftarnir komi í hviðum. 

Það sem af er degi hafa mælst um 1.200 jarðskjálftar á Reykjanesinu og eiga þeir flestir upptök sín við suðurenda kvikuganganna, við Fagradalsfjall. Af þessum 1200 skjálftum eru 15 skjálftar 3 að stærð eða stærri. Sá stærsti mældist 4,6 stig.

Frá því jarðskjálftahrinan hófst á Reykjanesskaga hinn 24. febrúar, eða fyrir 17 dögum, hafa mælst um 40 þúsund jarðskjálftar þar og af þeim eru 330 yfir þrír að stærð. 30 jarðskjálftar eru af stærðinni 4 eða stærri og sjö hafa náð 5 að styrkleika. Sá stærsti varð á upphafsdegi hrinunnar og mældist 5,7 að stærð. 

Í gær kom fram að skjálftavirkni næði nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, sem gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins.

Kvikugangurinn heldur áfram að stækka, en nokkur óvissa er um hversu hratt kvikuflæðið er. Síðustu daga hafa gögn bent til þess að kvikugangurinn hafi verið að færast í átt að suðurströndinni, en nýjustu mælingar benda ekki til að gangurinn hafi færst að ráði síðasta sólarhringinn.

Farið var yfir mögulega gasmengun ef kemur til goss. Umhverfisstofnun fór yfir þau mælitæki sem komið hefur verið fyrir til að fylgjast með mögulegri gasmengun.

Ef horft er til gossögunnar og jarðfræðirannsókna á svæðinu er ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar. Eins og staðan er núna er því ólíklegt að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi.

Líkt og áður hefur komið fram í tilkynningum vísindaráðs: Á meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka þarf að gera ráð fyrir að gosið geti á svæðinu. Eftir því sem núverandi ástand varir lengur aukast líkur á gosi segir á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert