Dregur úr þenslu en fleiri sprungur finnast

Grindavík. Fjallið Þorbjörn vinstra megin í bakgrunni.
Grindavík. Fjallið Þorbjörn vinstra megin í bakgrunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni og jarðskorpuhreyfingum umhverfis kvikuganginn sem myndast hefur undir Fagradalsfjalli. Enn eiga hreyfingar sér þó stað og skjálftahviður halda áfram, en þó ekki af sama ákafa og áður.

„Það er því enn full ástæða til þess að fylgjast vel með og engar vísbendingar eru um að þessum atburði sé lokið,“ segir Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur og dósent við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Hann sat fund vísindaráðs almannavarna sem hófst klukkan 13 í dag.

„Við þekkjum það úr Kröflueldum að þeir stóðu yfir í langan tíma og að dregið gat úr virkninni áður en hún fór síðan af stað aftur,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

Lítur út fyrir að dregið hafi úr kvikuflæði

Bætir hann við að eðlilegt sé að hægi á þenslu jarðskorpunnar eftir því sem atburðarásinni vindi fram.

„Það verður erfiðara fyrir kvikuna að komast upp þar sem mótþrýstingur eykst með tímanum. Þá dregur einnig úr rennslinu.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, sagði í gær að of snemmt væri að fullyrða að dregið hefði úr kvikuflæði, þó hægt hefði á þenslu.

Halldór segir að nú megi fullyrða einmitt það. Það líti út fyrir að dregið hafi úr flæðinu.

„Við byggjum það á líkönum sem keyrð voru í nótt og í morgun.“

Sprungur hafa myndast á Suðurstrandarvegi austan Grindavíkur.
Sprungur hafa myndast á Suðurstrandarvegi austan Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fleiri misgengi sem hafa verið að skríða til

Jarðvísindastofnun fékk nýjar gervitunglamyndir í hárri upplausn fyrr í vikunni og vinna við þær kláraðist í gær.

„Þær sýna í raun og veru fleiri misgengi sem hafa verið að hrökkva og skríða til. Nokkur þeirra eru í kringum Grindavík og það hefur verið eitthvað hnik á sprungum þar í kring.“

Tekið skal fram að engin merki eru þó um kvikuhreyfingar á því svæði. Einnig er unnið að því að kortleggja sprungur á yfirborði jarðar í grennd við kvikuganginn. 

„Það er svolítið af sprungum þarna inn með Fagradalsfjallinu, sem merki sjást um á yfirborði, og það er ekki alveg útséð með hvort það tengist jarðskjálftunum eða hvort þær séu vegna jarðskorpuhreyfinganna sem fylgja þessum gangi.“

Vísindaráð almannavarna mun ekki funda að nýju fyrr en eftir helgi, nema nýjar upplýsingar komi fram sem kalla á fund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert