Fornleifafræðingur flýtir sér á vettvang

Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur á flugvallarsvæði Landhelgisgæslunnar í dag.
Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur á flugvallarsvæði Landhelgisgæslunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddgeir Isaksen, fornleifafræðingur hjá Minjastofnun, er á leið með þyrlu á gossvæðið í Geldingadal í Fagradalsfjalli, að kanna hvort raunveruleg ummerki séu á staðnum um dys landnámsmannsins Ísólfs. Þetta er síðasti séns, enda meint dys á leið undir hraun.

Dysjar Ísólfs á Ísólfsskála er getið í gömlum örnefnaskrám og sagt að Ísólfur hafi viljað láta grafa sig í dalnum. „Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það sem bezt,“ eins og þar segir.

Oddgeir segir í samtali við mbl.is að þessar fornleifar séu í mikilli hættu vegna hraunflæðisins, sem stefnir að hinni meintu dys. Það sem Oddgeir vill gera er að mæla dysina upp, mynda hana og reyna að meta hvort þar hafi raunverulega verið gröf eða ekki.

Á myndinni er dysin auðkennd og allt lítur út fyrir …
Á myndinni er dysin auðkennd og allt lítur út fyrir að hún fari að lokum undir hraun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fengu ekki að fara í Geldingadal fyrir gos

Algengt er að örnefni, sem vísa á grafir og kennd eru við ákveðna landnámsmenn, reynist vera náttúrusmíð frekar en raunverulegar dysjar eða kuml. Hins vegar er algengt að kumla- og dysjaörnefni reynist geyma raunverulegar minjar – sem gæti verið tilfellið hér.

Af hraunflæðisspám að dæma stefnir kvikan að dysinni. „Það er auðvitað leiðinlegt en þetta sýnir bara mikilvægi fornleifaskráningar, því að þarna er menningararfur sem getur bara horfið hvenær sem er. Hann er líka að gera það víða, til dæmis þar sem hann hverfur vegna landbrots við sjó,“ segir Oddgeir.

Sérfræðingar frá Minjastofnun hafa í þessari jarðskjálftahrinu farið víða um svæðið og mælt upp skráðar minjar á mesta hættusvæðinu. Fyrir gosið fékkst þó ekki heimild til að fara inn í Geldingadal vegna goshættunnar, þannig að nú verður að sæta lagi á síðustu stundu.

Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir um dysina umræddu: „Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn [...] Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það sem bezt.“

Hægra megin við kvikuna má sjá dysina á grasfletinum.
Hægra megin við kvikuna má sjá dysina á grasfletinum. Skjáskot/Rúv
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert