Sótti illa búið fólk í grennd við gosið

Jeppi sveitarinnar í grennd við upptök gossins.
Jeppi sveitarinnar í grennd við upptök gossins. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn

Björgunarsveitin Þorbjörn sótti þrjá einstaklinga sem höfðu komið sér í ógöngur í þeim tilgangi að berja eldgos kvöldsins betur augum.

Bogi Adolfsson formaður sveitarinnar greinir frá þessu í samtali við mbl.is. Fjöldi fólks hefur gert sér ferð frá höfuðborgarsvæðinu og utar á Reykjanesskagann eftir að fregnir bárust af jarðeldum við Fagradalsfjall.

„Þetta fólk var einfaldlega illa búið og við tókum það upp í og til baka,“ segir Bogi og bætir við að fólkið hafi verið við Djúpavatnsleið.

„Fólk heldur að landslagið hérna sé svo þægilegt. Það er það ekki.“

Vera ekki á þessu flakki

Hann biður almenning um að fylgja fyrirmælum og halda sig fjarri upptökum gossins.

„Ég vil biðla til fólks að vera ekki á þessu flakki. Leyfa þessu aðeins að spila áður en farið er af stað og sýna viðbragðsaðilum og vísindamönnum skilning í þessum aðstæðum.“

Vegum hefur verið lokað fyrir umferð í kringum Fagradalsfjall. Hann bendir á að fyrst um sinn séu lokanir víðtækari á meðan vísindamenn átta sig betur á hvert stefnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert